150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Frelsið er gott. Það er ekki gott vegna þess að maður græði peninga á því. Það er bara gott, á sama hátt og hamingjan er góð og lífið er gott. Frelsið er eitt af þeim grunnatriðum sem krefjast engrar undirliggjandi réttlætingar eða málsvarnar. Það er bara gott fyrirbæri sem við eigum að hafa sem mest af. En alveg eins og með líf og heilsu og ríkidæmi eru því auðvitað einhver takmörk sett af ýmsum ástæðum. Það þarf alltaf að gefa upp skýrt hverjar þær ástæður eru.

Ég nefni þetta vegna þess að EES-samningurinn er oft ræddur í samhengi við að hann skerði frelsi Íslands og ég er því mjög ósammála. Það er kannski spurning um hvort maður geri greinarmun á Íslandi eða Íslendingum. Ég er ekki alveg viss um að það sé sniðugt að gera þann greinarmun, né veit ég nákvæmlega hvað væri þá átt við. Vissulega höfum við gengist undir skuldbindingar með því að gerast aðilar að EES-samningnum en það er ekki þar með sagt að við höfum glatað frelsi. Þvert á móti höfum við grætt fjórfalt, hið svokallaða fjórfrelsi sem tekur til flutninga á vörum, fólki, fjármagni og þjónustu. Það þýðir að hver einasti Íslendingur getur, ef honum dettur í hug, ef hann bara langar, flutt til Grikklands og búið þar til æviloka, fengið sér þar vinnu eða ekki, ef þeim sama Íslendingi sýnist svo. Það er frelsið, virðulegi forseti, og það er gott.

Að sjálfsögðu virkar þetta frelsi í báðar áttir, eðlilega, sem er líka gott. Það eru u.þ.b. 500 milljón manns, til eða frá, sem mega flytja til Íslands og búa hér í dag. Gjörvallt Grikkland gæti bara tekið upp á því að flytja til Íslands ef gjörvöllu Grikklandi dytti það í hug og það langaði til þess. En eins og sést er það ekki tilfellið. Skyldi kannski engan undra vegna þess að það er nú þannig með fólk að það vill almennt vera heima hjá sér. Fullt af fólki vill reyndar vera annars staðar, er eiginlega alveg sama hvar það býr, en flest fólk vill bara vera heima hjá sér. Það er yfirleitt út af einhverjum aðstæðum heima fyrir þegar fólk flytur sig um set í stórum hópum. Þá er það vandamál sem við eigum að díla við á þeim grundvelli.

Ég nefni þetta vegna þess að það er ákveðinn ótti við EES. Eða hvað eigum við að segja? Einhvers konar undirliggjandi andúð hjá einstaka öflum í samfélaginu við frjálst flæði fólks, sérstaklega auðvitað óttinn við flóðið, um að hingað komi flóð af fólki. Nú höfum við verið í EES í dágóðan tíma og enn er ekkert flóð komið. Óháð því ættum við ekki að líta á EES-samninginn eða aðild okkar að honum sem frelsisskerðingu Íslands. Hann er frelsisaukning Íslands. Hann veitir okkur aukið frelsi og það frelsi er gott.

Það er annað sem er þess virði að nefna í þessu sem er það að við erum í EES. EES er ekki bara einhver fjarlæg stofnun sem við höfum ákveðið að dásama og beygja okkur undir. Þetta er stofnun sem við tókum þátt í að búa til og við erum hluti af. Við gerðum það af fúsum og frjálsum vilja sem þjóðríki. Við getum sagt upp EES-samningnum þegar við viljum. Ástæðan fyrir því að enginn hér á þingi stingur upp á því, jafnvel ekki úr þeim áttum sem eiga víst að hafa hvað mestar efasemdir um ágæti þessa samnings, er sú að það vill enginn afleiðingarnar af því að segja honum upp. Afleiðingarnar eru ekki einhver refsing. Afleiðingin er bara sú að við myndum ekki lengur njóta þessa frelsis. Það yrði afleiðingin. Alveg eins og einhver sem er kannski svolítið þreyttur á vinnunni en fær bara svo fjári vel borgað. Hann vill ekki segja upp. Það er bara of mikið frelsi sem fylgir vinnunni. Hún er of vel borguð. Það eru of mikil fríðindi og of mikið af útlandaferðum eða hvað svo sem fólk vill í sínu starfi. Og það er því alveg eðlileg tilfinning sumra, sem kannski eru í vinnu sem þá langar ekki endilega til að inna af hendi að eilífu, að vilja ekki hætta í þeirri vinnu vegna þess að hún sé bara svo rosalega vel launuð. En það er líka til fólk sem hættir í vel launaðri vinnu vegna þess að það vill t.d. meira frelsi, fólk sem vinnur 12–14 tíma á dag í mjög vel launaðri vinnu en finnst það einn daginn bara ekki nógu gaman, er kannski með óskaplega há laun á mánuði en segir við sjálft sig: Nei, ég ætla að hætta í þessari vinnu, fara í vinnu með lægri launum. Það er það sem ég vil gera. Það er ekkert að því. Fólk tekur slíkar ákvarðanir á degi hverjum, sennilega að minni hluta til, býst ég við, geri ég fastlega ráð fyrir. En það er hægt og það má.

Til að fara í slíkt samtal um EES þurfum við fyrst að velta fyrir okkur sem þjóð/þjóðríki/hvaðeina hvort við viljum ekki vera frjáls. Ég segi alla vega fyrir sjálfan mig: Jú, ég vil vera frjáls. Ég vil að Íslendingar séu frjálsir, ég vil að allir hafi sem mest frelsi, að sjálfsögðu með þeim takmörkunum sem af einhverjum ástæðum fólki þykir svo mikilvægt að minnast á í hverri einustu andrá þegar á frelsið er minnst. En það þýðir auðvitað, alveg eins og þegar maður ræður sig í vinnu og fær fáránlega vel borgað, að maður þarf að færa einhverjar fórnir. Ef við metum þær fórnir sem við færum til að vera hluti af EES-samstarfinu í samanburði á móti því frelsi sem við fáum og einfaldlega þá efnahagslegu velsæld sem við fáum, sem er þó nokkuð mikil, gríðarleg, myndi ég segja, þá er þetta mjög augljós díll fyrir mér. Mér finnst mjög augljóst að það sé góður díll að vera í EES, finnst við þurfa að færa mjög lítið af fórnum. Þær eru til. Við þurfum stundum að samþykkja löggjöf sem við myndum annars ekki samþykkja. Ég get nefnt dæmi. Það er núna í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp um neytendavernd með ákvæði sem mér er mjög illa við, um lögbann. Við komum til með að ræða það hér, væntanlega einhvern tímann á næstunni. Mér er meinilla við það ákvæði og ég mun sennilega halda eld- og brennisteinsræðu um það. Sjáum til hvernig fer með útfærsluna á því öllu saman. En það er fórn ef svo fer að mínu mati. En þegar ég ber þá fórn saman við þetta frelsi, fjórfrelsið, er fórnin samt sem áður enn þá lítil.

Það er nefnilega annað líka sem við gleymum svolítið í umræðunni um EES. Við tölum yfirleitt um EES alfarið á efnahagslegum nótum. Við ræðum aukinn hagvöxt í kjölfar þess að við fengum ferðafrelsi og þjónustufrelsi og allt þetta frelsi. En það er annað sem við fáum sem fólk úti í samfélaginu tekur kannski ekki eftir en ég held að glöggir þingmenn átti sig á, við fáum fullt af mjög vandaðri löggjöf, löggjöf sem er búið að pæla rosalega mikið í, miklu fleira fólk en Ísland hefur burði til að ráða er búið að pæla miklu lengur og meira í hlutunum en Ísland hefur burði til að gera. Það er búin til löggjöf og eftir allt það ferli fer hún til EES og síðan hingað og er þá yfirleitt orðin mjög fáguð. Svo tekur við útfærsla Íslands og þar getur að vísu ýmislegt farið úrskeiðis. En ég er þeirrar skoðunar að stóran hluta — ég veit svo sem ekki hvað skal kalla stóran hluta, einhver nefndi 13% áðan, en alla vega einhvern hluta íslenskrar löggjafar, mjög mikilvægrar löggjafar — hefði Ísland ekki tekið upp ef ekki væri fyrir EES. Til að nefna eitt mjög nýlegt dæmi er persónuverndarreglugerðin. Ég hef enga trú á því að íslensk stjórnvöld, hvort sem er ríkisstjórnin eða Alþingi, hefðu að eigin frumkvæði búið til þetta fágaða, vel úthugsaða og góða löggjöf og komið henni í gegn. Ég hef enga trú á því. Það er ekki mín reynsla á þeim tíma sem ég hef verið á þingi. Sömuleiðis er ýmis löggjöf í kringum fjármál og þess háttar sem er mun flóknari og viðameiri. Þá kem ég inn á að kannski er helsti gallinn sá að við höfum ekki endilega burði til að geta séð út nákvæmlega hvað henti okkar hagsmunum best, sér í lagi þegar það eru tækifæri til að laga reglugerð að okkar aðstæðum sérstaklega en við komum ekki auga á þau nógu snemma til að bregðast við í tæka tíð. Það er vandamál. Það er fórn. Það er eitthvað sem við getum kannski lagað eða gert skárra en það er ella. En ég hygg ekki að það sé stór fórn miðað við það sem aðild okkar að EES-samningnum gefur okkur yfir höfuð.

Nú hef ég því miður ekki tíma til að fara út í stjórnarskráratriðin en það hafa svo sem ágætar ræður verið haldnar um þau og verður eflaust tilefni til að halda fleiri í framhaldi þess að við ljúkum umræðu um þetta mál. Ég þakka fyrir tímann, virðulegi forseti, og vona að hvað svo sem við gerum, hvort sem það varðar EES eða ESB, þá gerum við það í nafni frelsis.