150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:23]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslur hæstv. utanríkisráðherra, annars vegar um framkvæmd EES-samningsins og hins vegar um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem ber reyndar heitið Skýrsla starfshóps um EES-samstarfið. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir hans yfirferð yfir þessa skýrslu fyrr í dag.

Herra forseti. Ég ætla í máli mínu að fjalla um skýrslu starfshóps um EES-samstarfið, sem er afskaplega greinargóð og kemur að margvíslegum notum þegar EES-samstarfið er skoðað. Fyrir vinnu þessa starfshóps ber að þakka. Það er enginn vafi á því að EES-samstarfið hefur verið okkur hagfellt á margan hátt. Við höfum í þessu samstarfi gengið í gegnum einstakt hagvaxtartímabil sem hefur einkennst af miklum og fordæmalausum framförum hér á landi.

Undanfari þessarar skýrslu er skýrslubeiðni frá þinginu. Skýrslubeiðnin var samþykkt á Alþingi þrisvar sinnum, á 148. þingi, á 149. þingi og á yfirstandandi þingi. Beðið var um skýrslu frá utanríkisráðherra um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Var þess óskað að utanríkisráðherra flytti Alþingi skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þau áhrif sem samningurinn hefur haft hér á landi. Þannig hljómaði skýrslubeiðnin, frú forseti, og var ég í þrígang meðflutningsmaður á þessum beiðnum Alþingis.

Í erindisbréfi hæstv. utanríkisráðherra sem hann setti starfshópi þriggja lögfræðinga sem unnu síðan að skýrslunni um EES-samstarfið, og er í fimm liðum, segir, með leyfi forseta:

„Tekið verði saman yfirlit yfir og mat lagt á þann ávinning sem Ísland hefur haft af þátttökunni í EES-samstarfinu og þau helstu úrlausnarefni sem stjórnvöld hafa tekist á við í framkvæmd EES-samningsins.“

Aðrir liðir í erindisbréfi hæstv. ráðherra, sem lagt var fyrir starfshópinn, eru í fyrsta lagi að mat verði lagt á lagarammann sem hefur verið innleiddur á Íslandi á þeim sviðum sem EES-samningurinn nær yfir, og ýmsir aðrir þættir tilgreindir að auki. Í öðru lagi að litið verði til þróunar í samskiptum. Í þriðja lagi að tekið verði mið af þeim skýrslum sem komið hafa út á síðastliðnum árum um samskipti Íslands og Evrópusambandsins og eins umfangsmikilli skýrslu Norðmanna sem kom út fyrir nokkrum árum og í síðasta lagi að starfshópurinn taki saman heimildaskrá um skýrslur og fræðiritgerðir sem tengjast aðild Íslands að EES-samningnum.

Í inngangsorðum formanns starfshópsins segir að markmið hópsins hafi ekki verið að setjast í dómarasæti um kosti og galla EES-samstarfsins. Óskaði Alþingi eftir því, frú forseti, að menn settust í eitthvert dómarasæti? Var til of mikils ætlast að fjallað yrði með hlutlægum hætti um kosti og galla þá sem hafa birst okkur í þessu samstarfi? Var ekki eðlilegt að fjalla um aðstöðuna gagnvart 102. gr. samningsins, neyðarhemlinum svokallaða, sem mikið kom til umræðu síðastliðið sumar? Þetta er afgreitt í skýrslunni á bls. 76–77 og látið nægja að vitna í umsögn Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík. Af öllum þeim gögnum, álitsgerðum og umræðum sem áttu sér stað um þetta í allt vor, í sumar og í haust hefði mátt ætla að starfshópurinn fjallaði miklu ítarlegar um þá aðstöðu sem við komumst í og hvort þetta ákvæði samningsins sé virkt eða ekki. Það er þó þarna. Þar var þó um leið um að ræða það sem lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar, Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, höfðu mælt með í ítarlegri álitsgerð sinni sem fyrsta kosti; þetta er afgreitt í þessari skýrslu á þann hátt sem ég var að nefna hér áðan.

Frú forseti. Var ekki einnig eðlilegt að fjalla um tveggja stoða kerfið svokallaða og þá aðstöðu í samhengi við það sem fræðimenn hafa fjallað um varðandi samspilið milli ACER og ESA hvað varðar tiltekin ákvæði í þriðju orkutilskipuninni sem mikið kom til umræðu síðastliðið sumar? Áðurnefndir ráðgjafar ríkisstjórnarinnar töldu í álitsgerð sinni í vor að valdframsalið sem í því fælist tefldi á tæpasta vað gagnvart stjórnarskránni.

Frú forseti. Við samanburð á skýrslunni og erindisbréfinu er ekkert við skýrsluna sjálfa að athuga. Hún stendur fyrir sínu og er góð til síns brúks. Það er hæstv. ráðherra að svara því af hverju beiðnin eða efnisinnihald hennar hafi ekki verið lögð fyrir starfshópinn eins og Alþingi afgreiddi hana. Þetta er spurning um hvort fullnægt sé beiðni sem þingið hefur samþykkt í þrígang og þá hvort skýrslan feli í sér viðunandi og fullnægjandi viðbrögð við skýrslubeiðninni.

Frú forseti. Ég ætla ekki að kveða upp neina dóma en bendi á að forsætisnefnd hefur fengið ýmis erindi að undanförnu varðandi fyrirspurnir þingmanna sem ekki hefur verið sinnt með fullnægjandi hætti. Það er jú þingið sem er að óska eftir þessari skýrslu.