150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ef hæstv. ráðherra hefur heyrt orð mín þá hrósaði ég skýrslunni bæði fyrir hversu ítarleg hún er og efnismikil. Ég er að segja að mér finnst vanta í hana ítarlegri umfjöllun um galla samstarfsins og ég las áðan upp í ræðustól og vitnaði bæði í erindisbréfið, mjög ítarlega, og í orð formanns starfshópsins um hvernig hann hygðist taka á þessu. Eðlilega. Gagnrýni mín beinist að því að erindisbréfið inniheldur ekki efnisatriði í skýrslubeiðninni og skýrslan markast eðlilega af því.

Þetta er mjög ítarleg og góð skýrsla og ég tek undir það með hæstv. ráðherra. Ég er ekki að finna að því. Hvort þetta er ítarlegasta eða besta skýrslan veit ég ekki. Þetta er fyrsta skýrslan sem ég er þátttakandi í, að ég held, að biðja um og ég þakka fyrir hana og gerði það áðan. Ég er að segja að efnisinnihald skýrslubeiðnar Alþingis, sem var samþykkt hér í sölum Alþingis í þrígang, kemur ekki fram, eftir því sem ég best sé og las áðan upp, í erindisbréfinu.