150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður að heyra að hv. þingmaður sé ánægður með skýrsluna. Hv. þingmaður fór sérstaklega í það áðan að skýrsluhöfundar segðust ekki ætla að setjast í dómarasæti. Ég held að það hafi verið skynsamlegt. Það er nú bara þannig í lífinu að það sem einum finnst fallegt finnst öðrum ljótt. Eins og ég skil niðurstöður skýrslunnar er hér komin skýrsla sem gerir að verkum að við, í þessu tilfelli þingmenn en auðvitað öll þjóðin, höfum upplýsingar og staðreyndir út frá því sem beðið var um að taka saman í erindisbréfi út af skýrslubeiðninni. Síðan getur hv. þingmaður komið hingað upp og sagt að eitthvað sem þarna er inni sé bara galli við samstarfið, öðrum getur fundist það vera kostur.

Aðalatriði málsins er þetta: Við erum hérna með samanteknar þær upplýsingar sem beðið var um. Í svona skýrslubeiðni — eða ég er þeirrar skoðunar — er miklu betra að fá upplýsingar með þessum hætti því að allir þingmenn, og auðvitað miklu fleiri og kannski allir, geta við lestur skýrslunnar mótað sér eigin skoðun á því hvort þetta sé gott eða slæmt. Það geta allir metið það. Í mínum huga er það þings og þjóðar að meta það, í okkar tilfelli af því að við erum að hugsa um okkar hagsmunagæslu — nema menn hafi komist að þeirri niðurstöðu eftir að hafa lesið skýrsluna að við eigum ekki að vera þarna inni, það er líka sjónarmið, eða fara fram á breytingar á samningnum eða eitthvað slíkt. Þannig skil ég það þegar menn leggja upp með að þeir eigi ekki vera í dómarasæti. Mér finnst það vera skynsamlegt (Forseti hringir.) því að við getum öll mótað okkar skoðanir. Svo sannarlega þekki ég hv. þm. Karl Gauta Hjaltason að því að hann verður ekki í neinum vanda með að móta sér skoðun á einstökum köflum í skýrslunni og niðurstöðunni og EES-samningnum í heild sinni.