150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra enn og aftur fyrir andsvarið. Er til of mikils mælst, frú forseti, að þegar Alþingi samþykkir skýrslubeiðni í þrígang og hún er orðuð með þeim einfalda hætti sem ég las upp áðan, að hæstv. ráðherra endurómi það í sínu erindisbréfi sínu þannig að skýrsluhöfundar sem vinna síðan skýrsluna geti fjallað um efnið án þess að setja sig í neitt dómarasæti, fjallað með hlutlægum hætti um þau ágreiningsefni sem hafa verið uppi? Ég nefndi tvö dæmi um þau áðan. Það væri fengur í því að fá umfjöllun — ítarlegri umfjöllun, eins og ég nefndi áðan — í skýrslunni um t.d. þessi tvö dæmi, um þau tvö ágreiningsmál sem ég nefndi, 102. gr. og tveggja stoða kerfið. Í erindisbréfinu segir, með leyfi forseta: „Tekið verði saman yfirlit yfir og mat lagt á þann ávinning sem Ísland hefur haft af þátttökunni í EES-samstarfinu …“ Þetta er þetta hið besta mál. Það vantar bara helminginn af beiðninni — kosti og galla.