150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem einum finnst gott finnst öðrum slæmt og það sem einum finnst vera kostur finnst öðrum galli. Þegar raktar eru staðreyndir um mál og hvernig hlutir hafa þróast, t.d. eftir að EES-samningurinn kom til, eru auðvitað ýmsir sem sjá þær staðreyndir sem birtast á blaðinu sem galla. En mér finnst ótrúlegt að heyra þann neikvæða tón gagnvart upplýsingum og þessari vinnu í rauninni sem heyrist í ræðu þingmannsins. Ég get ekki séð annað en að það sé t.d. fjallað um eitt af þessum atriðum alveg ágætlega, um höfnunarvaldið, þótt það sé kannski ekki gert með nákvæmlega því orðalagi sem hugnast hv. þingmanni. Það er ekki þannig að þingið geti sent skýrslubeiðni og pantað niðurstöðuna, pantað orðalagið sem menn vilja fá. Þannig virkar þetta ekki. Hins vegar liggur hér fyrir gríðarlega ítarleg og vel gerð skýrsla, að mínu mati og að ég held allra sem tekið hafa þátt í umræðunni í dag, sem mun nýtast okkur vel til að kortleggja hvað við ætlum að gera í framhaldinu. Hér eru tillögur um það sem betur má fara, sem að sjálfsögðu er eitthvað sem mætti kalla galla á okkar framkvæmd, galla á því hvernig tekist hefur til við að framfylgja ákvæðum samningsins.