150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:41]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og býð hana velkomna í þingsal að nýju. Ég heyrði kannski ekki nákvæmlega hver spurningin var en tek þá fyrir athugasemdir hennar, um að sumir sjái gallana. Það er algjör misskilningur hjá hv. þingmanni. Ég er ekki að tala um gallana í þessari skýrslu, alls ekki. Ég er að tala um það hvernig beiðnin er sett fram á Alþingi og síðan er það hæstv. ráðherra að framfylgja henni með því að útbúa erindisbréf fyrir starfshópinn sem á að vinna skýrsluna. Ég er að tala um að þarna er klippt á milli. Ef orðalagið er skoðað í skýrslubeiðninni og síðan orðalagið í erindisbréfinu er ekki samhljómur þar á milli. Skýrslan ber þess merki. Það er ekki fjallað nógu ítarlega um þau ágreiningsefni sem ég hef margoft nefnt í ræðustól. Ágreiningsefni eins og um 102. gr. samningsins, ég nefndi hana. Hún er afgreidd í skýrslunni með mjög stuttu yfirliti og einungis vitnað til álits einnar stofnunar. Síðan er tveggja stoða kerfið. Ég hefði viljað sjá meiri umfjöllun um það.

Ég tel að ef erindisbréfið hefði fylgt orðalagi skýrslubeiðninnar sem við samþykktum á Alþingi væri skýrslan kannski eilítið ítarlegri eða öðruvísi og við fengjum þá kannski ítarlegri umfjöllun um þau efni sem við höfum rætt mjög mikið á Alþingi síðustu mánuði. Það er þetta sem ég er að tala um. Ég sé ekki bara gallana, alls ekki. Ég nefndi það í ræðu minni t.d. hversu hagfellt samstarfið hefði verið okkur og ég sé að skýrslan er mjög ítarleg.