150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skildi ræðu hv. þingmanns þannig að honum þætti vanta eitthvað í þessa skýrslu, vanta umfjöllun um það sem hv. þingmaður telur vera mestu gallana. Ég skildi alla vega ræðunni þannig. Ég er einfaldlega á þeirri skoðun að þegar ráðherra tekur skýrslubeiðni sem hefur verið samþykkt í þinginu og útfærir hana þannig að vinnan sem er unnin er ítarlegri og inniheldur meiri upplýsingar en þingið í rauninni fer fram á — og ég verð að segja að þetta er nú með ítarlegri skýrslum sem ráðherrar hafa lagt í eftir skýrslubeiðni frá Alþingi — þá hlýtur það bara að vera gott, að þingið fái meiri upplýsingar, vandaðri vinnu til að byggja sína vinnu á í framtíðinni. Ég lít alla vega á það sem kost en ekki galla.