Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu í dag sem snýr að skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins og síðan ræðum við skýrslu starfshóps um EES-samstarfið. Ég teldi það ákaflega jákvætt að við tækjum fleiri svona umræður og bútuðum málið svolítið niður í það sem snýr að skýrslu utanríkisráðherra, varnar- og öryggismál og slíka þætti, það gæti verið sérumræða í þinginu. Ég vil byrja á því að þakka höfundum þessarar miklu skýrslu, Birni Bjarnasyni, Kristrúnu Heimisdóttur og Bergþóru Halldórsdóttur, fyrir það viðamikla plagg sem skýrslan er. Ég er einn þeirra 13 þingmanna sem skrifaði í fyrra undir beiðni um skýrslu þar sem fjallað yrði um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þau áhrif sem samningurinn hefur haft hér á landi.

Ég vil fara inn á nýjar lendur í umræðunni um skýrslu starfshópsins í dag og ræða þá fyrst og fremst atvinnulífið, kosti og galla, með megináherslu á álframleiðslu í landinu sem sjaldan er talað um. Sú mynd hefur verið að skapast í höfði mínu undanfarin misseri að EES-samningurinn sé álframleiðslulandinu gríðarlega mikilvægur og mun ég fara yfir það í þessari ræðu.

EES-samningurinn leikur mjög stórt hlutverk í samkeppnishæfni álframleiðslu á Íslandi. Í skýrslu starfshópsins um EES-samstarfið, sem við ræðum, kemur fram að álframleiðsla á Íslandi njóti mjög góðs af aðild Íslands að EES. Í skýrslu starfshópsins kemur m.a. fram að sameiginlegi EES-markaðurinn sé markaðssvæði íslenskra álvera. Þau eru þar innan tollamúra, en tollar á ál sem flutt er inn á evrópska efnahagssvæðið eru á bilinu 4–7%. Hinn 1. júlí sl. var því fagnað að liðin væri hálf öld frá því að álframleiðsla hófst í Straumsvík. Fyrstu árin voru framleidd um 40.000 tonn í verksmiðju Ísals. Hægt og rólega varð reksturinn umfangsmeiri og eftir 25 ár í rekstri var framleiðslan komin í um 100.000 tonn. Þannig þróaðist vöxturinn fram að gildistöku EES-samningsins 1. janúar 1994.

Hvað hefur síðan gerst í álframleiðslu hér á landi á gildistíma EES-samningsins, þ.e. síðastliðin 25 ár? Það er áhugavert að velta fyrir sér tímalínunni í vexti álframleiðslu hér á landi í beinu framhaldi af EES-samningnum. Álver Norðuráls á Grundartanga var gangsett árið 1998, um fjórum árum eftir gildistöku samningsins. Í fyrstu var ársframleiðsla Norðuráls 60.000 tonn, á næstu 15 árum varð mikill vöxtur í framleiðslu Norðuráls og var framleiðslan komin í 290.000 tonn árið 2013. Í Straumsvík kom til stækkun álvers Ísals úr 100.000 tonnum í 160.000 tonn á sama tíma og starfsemi Norðuráls hófst. Fjarðaál í Reyðarfirði var síðan komið í full afköst 2008 með um 350.000 tonna ársframleiðslu. Í fyrra var heildarálframleiðsla hér á landi því rétt tæp 900.000 tonn. Í upphafi gildistöku EES-samningsins, eins og ég kom inn á áðan, var hún 100.000 tonn. Framleiðslan hefur margfaldast á 25 árum.

Sú mikla framleiðsluaukning sem orðið hefur á Íslandi á síðustu 25 árum, eða frá því að EES-samningurinn tók gildi, hefur haft mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf. Umræðan í þingsal um mikilvægi álframleiðslu fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf hefur verið mjög takmörkuð. Ég vil því nota þetta tækifæri, þegar við ræðum kosti og galla EES-samningsins, til að ræða mikilvægi samningsins sem snýr að efnahagslífi þjóðarinnar. Stóriðja á Íslandi og raforkuframleiðsla hefur byggt öflugan grunn undir íslenskt efnahagslíf sem mögulega hefur ekki notið sannmælis í umræðunni hér á landi. Ég nefni sem dæmi mikilvægi álframleiðslunnar í framhaldi af bankahruninu þar sem gjaldeyristekjur af álframleiðslu ásamt vexti í ferðaþjónustu — og gleymum ekki sjávarútveginum — kom okkur Íslendingum á undraskömmum tíma út úr erfiðri kreppu. Heildargjaldeyristekjur vegna vöru- og þjónustuviðskipta voru 1.323 milljarðar á síðasta ári. Á síðasta ári fluttu íslensku álverin út afurðir fyrir 220 milljarða kr. og stærsti markaður álveranna er Evrópa. Innflutningurinn á Evrópumarkað frá löndum utan markaðarins er tollskyldur upp að 4–7% en sökum aðildar Íslands að EES-svæðinu er Ísland fyrir innan tollamúrana, eins og ég minntist á fyrr í ræðunni. Sú staðreynd, þar sem framlegð í álframleiðslu er frekar lág, er grundvallaratriði í rekstri álvera á Íslandi en sjaldan er fjallað um þetta í því samhengi og því vildi ég ræða þetta í dag. Raforkusala til stóriðjunnar á Íslandi er yfir 50 milljarðar á ári.

Ég vil líka í því samhengi, sem snýr að samkeppnishæfni álframleiðslu á Íslandi, sem EES-samningurinn er þá stór hluti af, nefna að á síðasta ári var ársframleiðslan í heiminum um 70 milljónir tonna. Yfir helmingur allrar álframleiðslu í heiminum í dag fer fram í Kína. Kínverjar framleiddu rétt rúmlega 40 milljónir tonna árið 2018 eða um 57% heimsframleiðslunnar. Í því samhengi er rétt að benda á að um aldamótin síðustu var hlutdeild Kína ekki í neinum líkindum við það sem við sjáum í dag. Gríðarlegur vöxtur hefur orðið í framleiðslu áls í Kína á síðustu 20 árum og þegar ég fer að hugsa um þau mál, eins og ég hef gert undanfarin misseri, sér maður að EES-samningurinn er grundvallaratriði í öllu sem snýr að þessu.

Álframleiðslan er í dag um 15% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar, eins og við þekkjum síðustu árin, og kostnaður álvera á Íslandi í fyrra nam um 86 milljörðum innan lands. Það eru beinharðar gjaldeyristekjur fyrir íslenskt þjóðarbú. Líkt og kom fram áðan nam útflutningur íslenskra álvera um 220 milljörðum. Samkeppnishæfni íslenskrar álframleiðslu snýr því einna helst að tveimur þáttum, annars vegar að því að Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar að aðgengi að grænni raforku á hagstæðum kjörum.

Það plagg sem hér er er upp á um 300 síður. Þar sem ég var einn af skýrslubeiðendum í fyrra er ég mjög ánægður með þetta plagg og þær upplýsingar sem þar eru dregnar saman af skýrsluhöfundum. Eins og hefur komið fram í viðtölum við skýrsluhöfunda verða þeir sem kynna sér skýrsluna að vinna svolítið áfram með þetta í framhaldinu, eins og ég er að benda á með álframleiðslu í landinu. Annað sem ég vil benda á, fyrst ég á tvær mínútur eftir, og tel vera gríðarlega mikilvægt í öllu þessu máli, varðandi EES-samninginn og okkur sem þátttakendur í því, er íslenska flugið. Aðild okkar að Flugöryggisstofnun Evrópu er gríðarlega mikilvæg undirstaða undir flugrekstur á Íslandi, það starf sem þar er unnið og vottanir og annað sem koma í gegnum það. Ekki síst er rétt að benda á að Íslendingar og Norðmenn, í gegnum EES-aðildina, gerast óbeint aðilar að Open Skies samningnum á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Evrópa og Bandaríkin sömdu 2009 um þennan samning sem kallaður er Open Skies. Ísland og Noregur ganga inn í þann samning 2011. Það er sjaldan talað um það, sem ég tel að sé grundvallaratriði í flugrekstri á Íslandi og hinni miklu aukningu sem orðið hefur í ferðaþjónustu hérlendis, að þetta er einn af þeim stóru þáttum í öllu því máli. Þegar opnaðist inn á þessa flugmarkaði og sérstaklega til Bandaríkjanna gátu Íslendingar farið að fljúga vítt og breitt um Bandaríkin öll og Kanada í miklu ríkari mæli en varnarsamningurinn, eða samningurinn sem við náðum við Bandaríkjamenn á sínum tíma um leyfi til að fljúga til Bandaríkjanna, kvað á um. Ef við tökum stóriðju í landinu og flugreksturinn og ferðaþjónustuna erum við farin að tala um að þessar atvinnugreinar eru með um 55–60% af heildarútflutnings- og gjaldeyristekjum Íslendinga. Mér fannst rétt að koma aðeins inn á það í ræðunni hversu mikill grundvallarsamningur þetta er í stóra samhenginu í efnahagslífi þjóðarinnar.