150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[19:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Mér hefur fundist hún vera góð og málefnaleg og það vekur vonir um að framhaldið geti orðið gott. Þegar við tölum um að við ætlum að vinna þessa hluti saman, hafa samvinnu og samráð við þingið, þá er það mín skoðun að við eigum að gera það með þessum hætti. Ég var spurður: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera varðandi þessa 15 úrbótapunkta? Ríkisstjórnin er að tala við þingið og þingnefndir til þess að fá sjónarmið þeirra. Ef við kæmum hér og segðumst ætla að gera þetta allt, eða að við ætluðum að gera 10 af 15 eða hvað það er, væri það ekki eiginlegt samráð í mínum huga. Ég heyri ekki annað en hér sé samhljómur um EES-samninginn að langstærstum hluta og kannski öllum og að við getum náð saman um að rýna þetta gagnmerka rit, þessa skýrslu, og taka síðan ákvörðun um það hvaða skref við ætlum að stíga til að styrkja hagsmunagæsluna.

Niðurstaðan í skýrslunni er í mínum huga þessi: Í fyrsta lagi er ávinningurinn augljós og sumt af því sem kemur hér fram kom mér á óvart. Ég gerði mér t.d. ekki grein fyrir því að árið 2018 voru gefin út 62.753 sjúkratryggingakort. Ég myndi ætla að mjög stór hluti af því væri eldra fólk sem dvelur á suðrænni slóðum í Evrópu, örugglega yngra fólk líka. Við þekktum það og vissum að yngra fólk nyti góðs af ýmsu sem snýr að mennta- og vísindasamstarfi og við vissum líka um þann einstaka ávinning sem hlýst af því að hægt er að vera með fyrirtæki í Reykjavík sem keppir á þessum markaði án þess að þurfa að flytja það til Rotterdam eða Hamborgar eða annað í Evrópu. Við gleymum því stundum að það er gott fyrir alla að hafa almennar leikreglur á markaði. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir litlu aðilana sem geta ekki beitt valdi ef þeir eru beittir órétti eins og stærri ríkin hafa stundum gert. Þetta þýðir að þýska ríkisstjórnin getur ekki farið fram með óeðlilegum ríkisstyrkjum í samkeppni við okkar fyrirtæki, svo að dæmi sé tekið. Þetta er ekki lítið mál, þetta er risamál.

Það er mjög áhugavert að skoða umræðurnar sem urðu þegar EES-samningurinn fór í gegnum þingið. Hvað töluðu menn um þar? Það speglar svo hvernig íslenskt þjóðfélag var á þeim tíma. Þegar menn töluðu um útflutning töluðu menn bara um tvennt, fisk og ál. Og sem betur fer erum við komin með miklu fleiri stoðir undir atvinnulífið og sem betur fer er atvinnulífið orðið miklu fjölbreyttara.

Í öðru lagi eru valkostirnir sem eru til staðar ekki góðir. Stundum hefur verið talað um að Sviss sé með eitthvert sérstaklega gott fyrirkomulag en það er rakið ágætlega, sem ég var svo sem alveg meðvitaður um, í skýrslunni hvernig það fyrirkomulag er. Ef menn eru ósáttir við það að við höfum ekki nógu mikið um leikreglurnar að segja vilja menn örugglega ekki vera á sama stað og Sviss. Þeir verða bara að taka það upp, ef þeir ætla að vera með á þessum markaði, sem lagt er fyrir þá.

Í þriðja lagi erum við okkar eigin gæfu smiðir. Það sem kemur mér á óvart er það sem menn hafa gagnrýnt og haft áhyggjur af breytingunum á samningnum á þessum 25 árum. Flest af því, þó að menn geti alltaf deilt um hvað sé tæknilegt og hvað sé pólitískt, er það sem menn hafa þurft að þróa. Menn benda réttilega á að þess vegna er EES-samningurinn enn í gildi og enn virkur, vegna þess að hann er alltaf að breytast. Ef EES-samningurinn væri eins og hann var fyrir 25 árum myndu allir í þessum sal segja að hann væri fullkomlega gagnslaus. Hann var gerður fyrir 25 árum þegar ekki voru einu sinni til tölvur, þegar umhverfið var allt annað. Ef samningurinn væri óbreyttur væri ekki hægt að eiga viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu vegna þess að þetta væru algjörlega úreltar reglur. En samningurinn er lifandi til þess að markaðurinn sé áfram virkur og tæknibreytingarnar eiga ekki að koma í veg fyrir viðskipti heldur er reynt að koma því inn í samninginn. Eins og kom fram hjá síðasta hv. þingmanni þurfum við að fylgjast með þessu, þ.e. stjórnmálamenn, því að sumt er pólitík — hagsmunagæsla og hagsmunagæsla er ekki það sama. Í þessum sal eru sumir sem vilja ganga miklu lengra í samrunaþróuninni, vilja jafnvel ganga í Evrópusambandið og svo eru aðrir sem vilja að við séum í þessu samstarfi en förum ekki þá leið. Þeir hafa þá ólíka nálgun þegar kemur að hagsmunagæslunni. Þess vegna þurfum við á fyrstu stigum að fylgjast vel með þessu. Það er það sem ég hef lagt áherslu á sem ráðherra frá fyrsta degi og þessi skýrsla er liður í því.

Í fjórða lagi finnst mér mikilvægt að menn horfist í augu við það að ýmsir aðilar hafa reynt að grafa undan EES-samningnum. Nú er ég ekki að segja að það sé bannað að vera á móti EES-samningnum. Ég er ekki að segja það. Ég er ekki að segja að það sé bannað að gagnrýna EES-samninginn, alls ekki. Það sem ég er hins vegar segja er að ef menn ætla að gera það verða þeir að fara rétt með. Það er t.d. algjörlega skýrt og það getur enginn þrætt fyrir það að þeir sem vilja fara inn í ESB hafa þráfaldlega haldið því fram að við tökum allt að 90% af gerðum Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Það eru ósannindi, það er vel undir 20%. Reyndar er líka rangt að einhver vafi sé um það hvað felist í því að vera í Evrópusambandinu. Það geta allir fundið það út sem það vilja. Það er kaldhæðnislegt að það sama gerðist á Íslandi og í Noregi, bara nokkru seinna, að þeir sem vilja ganga úr EES hafa tekið upp röksemdir ESB-sinna og nota það sem röksemd fyrir því að við þurfum að ganga úr EES. Ekki er það betra. Síðasti ræðumaður spurði sérstaklega hvort heimilt væri að taka í neyðarhemilinn. Það er óumdeilt. Það er óumdeilt að við getum alveg tekið í neyðarhemilinn en þá gerum við það vegna þess að það er síðasta úrræðið og við höfum málefnaleg rök fyrir því.

Ég nefndi hér í umræðunni, sem ætti ekki að vera leyndarmál, og ég hef verið þeirrar skoðunar frá því málið kom fyrst fram 2011, að það er t.d. ekki í boði fyrir okkur að samþykkja ríkisábyrgð á bankainnstæðum. Í mínum huga er það alvörumál og ég veit ekki hvaða rök þeir sem skilja ekki hve mikilvægt það er fyrir okkur að fara ekki þá leið hafa fyrir því að tala gegn þeim málflutningi okkar. Ég var ánægður að finna samhljóm meðal þingmanna um það mál og það skiptir miklu.

Að endingu vona ég, og mér finnst umræðan sýna það, að þetta geti orðið grunnur að upplýstri umræðu um þennan samning og það er lykilatriði. Það verður áhugavert að sjá hvernig mál munu þróast í íslenskum stjórnmálum á næstunni. Eins og staðan er núna þá er það alveg kýrskýrt að þeir flokkar sem eru í ríkisstjórn eru gæslumenn EES-samningsins, og þá er ég að vísa í þessa ólíku flokka, Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Vinstri græna. Síðan eru hér flokkar sem hafa það jafnvel á stefnuskrá sinni að ganga í Evrópusambandið. Ég þarf ekki að nefna þá. Spurningin hlýtur að vera hver þróunin verður hjá Miðflokknum. Ætla þeir að ganga jafn langt og sá flokkur sem var að skipta sér af málum hér í tengslum við þriðja orkupakkann sem vill ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu, og þá er ég að vísa í Noreg? Ég held að ég sé ekki sá eini sem mun fylgjast mjög vel með því hvernig mál þróast hjá Miðflokknum. Ástæðan fyrir því að ég tek það hér upp er sú að ég tel mjög mikilvægt að það liggi alveg skýrt fyrir. Nú getur vel verið að við myndum vilja hafa hlutina allt öðruvísi en heimurinn er eins og hann er. Það liggur alveg fyrir í mínum huga að það er enginn betri valkostur fyrir okkur Íslendinga, þegar kemur að samskiptum okkar við Evrópu, en samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég hef verið þeirrar skoðunar mjög lengi og þessi skýrsla og þessi umræða í dag gerir ekkert annað en að herða mig í þeirri afstöðu. Við hljótum, þegar við ræðum um utanríkismál, ekki bara að ræða hagsmunagæsluna heldur líka framtíðina, hvernig við sjáum hana fyrir okkur. Í mínum huga er það algjörlega skýrt að við eigum að halda okkur við EES-samninginn og skerpa á hagsmunagæslunni. Það er langbest fyrir okkur Íslendinga í nútíð og framtíð.