150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson talaði í gær um ferðakostnað þingmanna. Í ræðu sinni talaði hann einnig um ferðakostnað í sambandi við utanlandsferðir. Ég verð bara að bera af mér þær sakir strax, hvort sem það var meint til allra þingmanna eða eingöngu til ráðherra, að ég hef aldrei skrifað krónu á kílómetra til flugvallarins, aldrei látið þingið borga fyrir bifreið, aldrei látið þingið borga fyrir neitt þegar ég er erlendis nema þegar hótelkostnaður fer fram úr öllu hófi. (Gripið fram í: Ráðherra.) — Hann segir ráðherra.

Annað langar mig til að tala sérstaklega um og það er um störf þingsins. Við sverjum eið að stjórnarskránni og okkur ber að segja satt og rétt frá. Okkur ber að tilkynna veikindi eins og allir aðrir og leggja fram veikindavottorð. Mér er spurn: Er í einhverjum tilfellum leyfilegt að skrá á sig fjarvist þegar menn eru veikir? Er hægt að fara fram hjá þessum lögum? Ég vil hafa allt uppi á borðinu og við eigum að vera heiðarleg í okkar störfum og segja satt og rétt frá. Ég hef, þrátt fyrir mín veikindi, reynt að standa mig eins og ég get á þingi, ég hef reynt að vera heiðarlegur í mínum störfum. Mér finnst að við eigum að gera kröfu um það að fólk sé heiðarlegt, að við þingmenn séum fyrirmynd. Okkur ber að fara 100% að lögum. Okkur ber að fara að stjórnarskránni. Við sverjum eið að henni og okkur ber að segja satt og rétt frá. Hvort sem það eru veikindi eða annað þá eigum við að passa okkur á því að vera til fyrirmyndar og passa okkur líka á því að það er verið að fylgjast með okkur þarna úti. Ef við erum að brjóta stjórnarskrá eða lög segir það mikið og þá er erfitt að dæma aðra fyrir það.