150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera hér að umtalsefni tvær nýlegar skýrslur sem hafa komið fyrir sjónir okkar. Sú fyrri er frá Eurostat og greinir frá því að Íslendingar skeri sig úr öðrum þjóðum í kringum sig í því að fjölskyldur og aðstandendur sjúklinga, langveikra, fatlaðra og heilabilaðra taki meiri þátt í þeirri umönnun sem þetta fólk þarf á að halda en tíðkast hjá öðrum þjóðum. Um 9% fullorðinna landsmanna annast þess háttar umönnun á langveikum, fötluðum eða öldruðum ástvinum sínum en þetta hlutfall er um 3% annars staðar á Norðurlöndunum.

Hin skýrslan sem mig langar að nefna er eftir Kolbein Stefánsson og fjallar um fjölgun örorkulífeyrisþega hér á landi en Kolbeinn kynnti skýrsluna fyrir allsherjar- og menntamálanefnd í gær.

Mikið hefur verið rætt um fjölgun öryrkja í hópi ungra karlmanna að undanförnu, sem er vissulega sérstakt áhyggjuefni og úrlausnarefni fyrir samfélagið, en minna hefur farið fyrir því að við gefum hinu gaum. Hjá skýrsluhöfundi kemur fram að konur eru líklegri en karlar til að hljóta örorku þegar líður á ævina. Munurinn eykst þegar líður á aldurinn og stærsti hluti þeirrar fjölgunar er til kominn vegna kvenna á aldrinum 50–66 ára. Mér sýnist augljóst að samhengi sé á milli þessara tveggja skýrslna því að enn er það svo að það mæðir meira á konum að sinna umönnun fjölskyldumeðlima, bæði líkamlega og andlega, og þegar um er að ræða konur sem hafa kannski verið í krefjandi störfum um árabil, þegar slík fjölskylduumönnun bætist ofan á slíkt, getur hreinlega eitthvað gerst og eitthvað gefið sig.

Ég sé ekki betur en að fórnarkostnaður samfélagsins (Forseti hringir.) af því að velta velferðarkerfinu inn á heimilin og yfir á fjölskyldurnar sé aukin örorka kvenna.