150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

félög til almannaheilla.

181. mál
[15:36]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um félög til almannaheilla á þskj. 182, mál nr. 191. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um félög til almannaheilla. Markmiðið með lagasetningunni er að skjóta traustari stoðum undir frjáls félagasamtök sem geta talist almannaheillasamtök. Vinna við frumvarpsgerðina á rætur að rekja til frumkvæðis Almannaheilla – samtaka þriðja geirans og undirbúningsstarfs á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins og síðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Frumvarpið byggir á eldra frumvarpi sem lagt var fram á 145. löggjafarþingi af þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra en það frumvarp náði ekki fram að ganga. Gerðar voru nokkrar breytingar á frumvarpinu til einföldunar og það lagt fram á 149. löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt frá framlagningu síðasta þings.

Eins og fyrr segir er með frumvarpinu lagt til að sett verði heildarlög um félög til almannaheilla, þ.e. félög sem samkvæmt samþykktum sínum eru stofnuð til eflingar ákveðnum skýrt afmörkuðum málefnum til almannaheilla en er ekki komið á fót í ágóðaskyni fyrir félagsmenn. Hér er átt við svonefnd hugsjónafélög sem stofnuð eru til mannræktar eða styrktar á einhverju sviði og beinast að ákveðnum einstaklingum sem uppfylla ákveðin skilyrði eða málefni sem nánar eru skilgreind í samþykktum félagsins. Málefnið verður að vera talið til einhverra þjóðþrifa, svo sem íþrótta- og mannræktarfélög, styrktarfélög sjúklinga, björgunar- og hjálparfélög, neytendafélög og menningarfélög. Þannig yrði þetta félagaform valið ef þátttaka margra væri æskileg. Önnur félagaform geta verið æskileg séu fjármunir þegar fyrir hendi og til stendur að stýra þeim til hagsbóta fyrir ákveðið málefni, samanber sjóði og stofnanir samkvæmt staðfestri skipulagsskrá í samræmi við lög nr. 19/1988 og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur eftir lögum nr. 33/1999.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að félög til almannaheilla verði skráð í almannaheillafélagaskrá sem ríkisskattstjóri starfrækir en að skráin verði hluti af fyrirtækjaskrá. Lagt er til að skráning í almannaheillafélagaskrá verði valkvæð en þó geti opinberir aðilar gert það að skilyrði fyrir styrkjum, rekstrarsamningum og opinberum leyfum til félaga til almannaheilla að þau séu skráð í almannaheillafélagaskrá. Hugsunin að baki ákvæðinu er sú að eðlilegt sé að ríki, sveitarfélög, opinberar stofnanir og fyrirtæki í opinberri eigu geti gert það að skilyrði að almenn félagasamtök sem sækjast eftir fyrirgreiðslu hins opinbera uppfylli einhver lágmarksskilyrði um uppbyggingu og sýnileika svo hafa megi eftirlit með því hvert fjármunir hins opinbera fara og að aðrir styrktaraðilar slíkra félagasamtaka geti jafnframt gert sér grein fyrir því hvað þeir eru að styrkja og hverjir beri ábyrgð á styrktri framkvæmd. Það skal þó skýrt tekið fram að hér er um að ræða heimild fyrir opinbera aðila til að gera kröfu um að félag sé skráð í almannaheillafélagaskrá en ekki skyldu.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um stofnun félags til almannaheilla, meginefni samþykkta slíks félags sem og ákvæði um félagsaðild, svo sem um félagsmenn, inngöngu, úrsögn og brottvísun úr félagi. Einnig er í frumvarpinu að finna ákvæði um hvernig ákvarðanatöku skuli háttað, um almenna félagsfundi, um hvaða málefni skuli taka á dagskrá aðalfundar og um aðalfundarboð. Í frumvarpinu er enn fremur að finna ákvæði um stjórn félags, hlutverk hennar og ákvarðanir á stjórnarfundum. Einnig er að finna ákvæði um ráðningu framkvæmdastjóra og hlutverk hans sem og hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða og skulu þeir hafa forræði á búi sínu.

Í frumvarpinu er kveðið á um að félag skuli kjósa einn eða fleiri endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki og skoðunarmann eða skoðunarmenn úr hópi félagsmanna til að yfirfara ársreikninga. Þá er kveðið á um að eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings skuli ársreikningur birtur á vef félagsins eða opinberlega með sambærilegum hætti.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um slit félags, afskráningu, t.d. þegar félag er hætt störfum, og slit félags með dómi. Þá er að finna ákvæði um skráningu í almannaheillafélagaskrá en skráningin er valkvæð eins og fyrr segir. Í kafla um skráningu félaga til almannaheilla er að finna ákvæði um hvaða atriði skuli skrá og hvaða fylgiskjöl þurfi að fylgja með tilkynningu um skráningu. Lagt er til að félög til almannaheilla noti skammstöfunina fta og að eingöngu félögum til almannaheilla sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá verði heimilt og skylt að nota skammstöfunina í heiti sínu.

Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði um viðurlög, m.a. er lúta að því að aðili skýri vísvitandi rangt eða villandi frá högum félags eða öðru sem það varðar í opinberri auglýsingu eða tilkynningu, skýrslum, ársreikningi eða yfirlýsingu til aðalfundar eða forráðamanna félags eða tilkynningum til almannaheillafélagaskrár.

Að lokum er í frumvarpinu að finna bráðabirgðaákvæði þar sem lagt er til að almenn félagasamtök sem skráð eru í fyrirtækjaskrá við gildistöku laganna geti að uppfylltum skilyrðum þeirra farið fram á að breyta skráningu sinni í félög til almannaheilla sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá.

Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2020. Með því er bæði þeim félögum sem hyggjast óska eftir skráningu í almannaheillafélagaskrá gefið svigrúm til að undirbúa breytinguna sem og ríkisskattstjóra að gera þær breytingar sem þarf að gera hjá stofnuninni. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verða fjárhagsáhrif á afkomu ríkissjóðs engin. Frumvarpið hefur ekki í för með sér auknar tekjur fyrir ríkissjóð og þegar hefur verið gert ráð fyrir kostnaði við samþykkt þess innan núgildandi útgjaldaramma atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem miðar að því að skjóta traustari stoðum undir frjáls félagasamtök sem geta talist almannaheillasamtök. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.