150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

félög til almannaheilla.

181. mál
[15:44]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fylgdist með þeirri umræðu sem spratt upp í nefndinni og fékk sömuleiðis erindi þess efnis. Ég lét skoða það sérstaklega hvað varðar aldurinn og í frumvarpinu segir að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skuli vera lögráða. Ég lét skoða sérstaklega hvort einhvern veginn væri hægt að koma til móts við það að til eru félög í dag, til að mynda nemendafélög, þar sem fólk er innan borðs sem ekki er orðið 18 ára. Niðurstaðan varð sú að þetta yrði að vera svona. Maður verður að vera lögráða til að vera framkvæmdastjóri eða í stjórn. Það er ekki hægt að taka í sundur þau réttindi. Við erum að leggja til að þetta sé eingöngu heimilt en ekki skylt og þar af leiðandi geti áfram verið um að ræða félög sem eru með fólk sem er undir 18 ára aldri, en til þess að þau fengjust skráð sem almannaheillafélög þyrftu stjórnarmenn og framkvæmdastjóri, eins og hér er lagt til, að vera lögráða. Sú vinna sem ég lét vinna skilaði því að ekki væri hægt að taka það í sundur vegna þess að skyldurnar eru þannig að maður verður að vera lögráða til að geta borið þær.