150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

félög til almannaheilla.

181. mál
[15:46]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég skil alveg þessa röksemdafærslu en hef engu að síður ákveðnar vangaveltur um að það kynni að takmarka að einhverju leyti möguleika til að mynda ungmenna til að sitja í stjórnum. Vera kann að í meðförum nefndarinnar komi upp flötur sem geti leyst þetta mál, til að mynda með áheyrnarfulltrúum. Ég vona að í meðförum nefndarinnar verði öllum steinum velt við.

Ráðherra kom einnig inn á það í andsvörum sínum að við erum að tala um valkvæða skráningu. Það er ekki skylda sem hvílir á félögunum að skrá sig. En ég tek undir það með hæstv. ráðherra að frumvarpið horfir sannarlega til framfara einmitt fyrir þessi félög vegna heimilda og réttinda sem þau fengju við að skrá sig sem almannaheillafélög.