150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

félög til almannaheilla.

181. mál
[15:47]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég lét skoða það mjög gaumgæfilega hvort með einhverju móti væri hægt að skrifa út að hafa mætti einstakling undir 18 ára í stjórn slíkra félaga því ég veit að það er þannig í dag en löggjöfin okkar er einfaldlega þannig að maður getur ekki stofnað til skulda ef maður er ekki lögráða. Stjórnir svona félaga geta gert það og þess vegna þurfa meðlimir að vera orðnir 18. Auðvitað er tilefni til að huga að stjórnskipulagi slíkra félaga með það í huga að ungmenni yngri en 18 ára geti haft áhrif á starfsemi félagsins þó að þau geti ekki setið í stjórn. Áheyrnarfulltrúi er ein leið til þess. Ef einhver vegur er fyrir nefndina að finna frekari flöt á því mun ég að sjálfsögðu styðja það.