150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

félög til almannaheilla.

181. mál
[15:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Frumvarp það sem við fjöllum um í dag, frumvarp til laga um félög til almannaheilla, hefur verið dálítið lífseigt og átt sér langan aðdraganda. Regnhlífarsamtök almannaheillasamtaka, þ.e. Almannaheill – samtök þriðja geirans, hafa haldið málefni þessu á lofti alllengi og alveg frá 2008 og stöðugt vakið athygli á mikilvægi þess að umgjörð málaflokksins yrði styrkt almenningi til heilla. Eftir áskorun frá þessum samtökum skipaði velferðarráðherra sem fór með málefni félagasamtaka á þeim tíma, Guðbjartur heitinn Hannesson, starfshóp til að skoða nauðsyn þess að setja lög. Starfshópurinn skilaði ráðherra síðan skýrslu árið 2010.

Starfinu sem hófst í félags- og tryggingamálaráðuneytinu var síðan haldið áfram í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og síðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla, eins og það hét þá, var svo fyrst lagt fyrir Alþingi á 145. þinginu, 2015–2016, af þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það náði ekki svo langt að það næði fram að ganga. Það var aftur lagt fram á 149. þingi í mars á þessu ári talsvert breytt og aftur núna í október 2019 þannig að það er skammt stórra högga á milli hjá ráðherra og fagnaðarefni af hve mikilli einurð unnið er að málinu. Vonandi sjáum við niðurstöðu og árangur af þessari staðfestu í formi lagasetningar á þessu þingi því að við erum með lifandi dæmi þessi dægrin sem sanna að rík þörf er á að skerpa laga- og starfsumgjörð almannaheillasamtaka.

Í meðförum þingsins og á grundvelli umsagna ýmissa hagsmunaaðila hefur frumvarpið tekið breytingum, slípast til og batnað að áliti vísustu karla og kvenna. Það er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt frá framlagningu þess á 149. löggjafarþingi, í mars sl. Ég þykist vita að menn horfi með nokkurri eftirvæntingu til þess að þetta frumvarp verði að lögum. Efni þessarar ræðu verður kannski að einhverju leyti endurtekning enda er um sama frumvarp að ræða og fyrr á þessu ári.

Lög þessi munu gilda um félög sem skráð eru í almannaheillafélagaskrá ríkisskattstjóra sem mun sjá um að viðhalda þeirri skrá og afskrá, sem stofnað er til eða starfrækt er í þeim tilgangi, þ.e. þessi félög, að efla afmörkuð málefni til almannaheilla samkvæmt skilgreindum samþykktum og gilda ekki um félög sem komið er á fót í ágóðaskyni fyrir félagsmenn eins og hæstv. ráðherra drap á. Það er rétt að árétta að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að skráning félags til almannaheilla sé valkvæð og eigi ekki við um öll félagasamtök. Lítil félög sem ekki eru með umfangsmikinn rekstur þurfa ekki að sækja um slíka skráningu og geta starfað áfram án þess að þessi fyrirhuguðu lög hafi önnur áhrif en að vera fyrirmynd um góðan rekstur.

Almannaheillasamtök í landinu hafa óskað eftir að settur verði vel skilgreindur lagarammi utan um starfsemina og telja hann mikilvægan til að efla traust á starfsemi almannaheillasamtaka og stuðla að góðum starfsháttum. Skilgreina þurfi betur eftirlit og gegnsæi í starfi samtakanna, og í raun óska þessi félagasamtök, sem mörg gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu, eftir traustu lagaumhverfi til að starfa eftir, líkt og t.d. sjálfseignarstofnanir og einkahlutafélög hafa nú þegar.

Hvað eru annars almannaheillasamtök í þessum skilningi? Öll þekkjum við dæmin. Þetta eru samtök sem auðgað hafa líf okkar í gegnum tíðina, gætt hagsmuna, barist fyrir ýmislegum réttindum og velferð borgaranna, skapað umræðu, verið rödd, opnað okkur skilning á einu og öðru í samfélaginu, rofið einangrun og aukið lífsgæði. Dæmi um þetta eru fjölmörg, ADHD-samtökin, Blindrafélagið, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Krabbameinsfélagið, Kvenréttindafélagið, Norræna félagið, SÁÁ, Ungmennafélag Íslands, Öryrkjabandalag Íslands, Rauði krossinn og raunar SÍBS sem talsvert er til umfjöllunar þessi dægrin og mörg fleiri.

Almannaheillasamtökum er nauðsynlegt að efla traust á starfsemi sinni. Það liggur eiginlega í hlutarins eðli. Hinu opinbera, sem oft gerir samninga við almannaheillasamtök um ýmis verkefni, svo sem málsvarnarhlutverk og samfélagslega þjónustu, ætti að vera hagur í því að rekstrarform hjá slíkum samstarfsaðilum sé traust og að ljóst liggi fyrir hverjar skyldur þeirra eru sem og hlutverk, hvernig stjórnunarfyrirkomulag ríki, hvernig markmiðin eru og hvernig langtímasýnin lítur út. Sérhvert áfall eða misferli sem á sér stað innan slíkra samtaka, og hafa reglulega orðið að fjölmiðlaumfjöllun hér á landi, getur bitnað með beinum og óbeinum hætti á öðrum almannaheillasamtökum og reyndar líka á opinberum aðilum á meðan lagaramminn utan um rekstur þeirra er ekki vel skilgreindur.

Tilgangurinn er annars vegar að gera rekstrarumhverfi almannaheillasamtaka á Íslandi eins og best þekkist í löndunum í kringum okkur, bæði að því er varðar skattheimtu af starfi almannaheillasamtaka og skattfrádrátt til handa fyrirtækjum og einstaklingum sem styðja við starf þeirra. Hins vegar er tilgangur laganna líka að skapa meiri tiltrú á almannaheillasamtökum sem við þurfum svo mjög á að halda. Með því að setja skilyrði í lög fyrir því að slík félög geti notið ýmissa réttinda og borið skyldur er leitast við að tryggja almenningi að félög og félagasamtök sem njóta stuðnings eða fyrirgreiðslu séu traustsins verð. Slík lög yrðu því til mikilla bóta fyrir þriðja geirann og samfélagið.

Með frumvarpinu er ekki stefnt að því að setja reglur um öll frjáls félög heldur einungis hin skilgreindu almannaheillasamtök líkt og gert hefur verið t.d. í nágrannalöndum. Finnland er gjarnan nefnt í því sambandi.

Virðulegur forseti. Allmargar umsagnir bárust efnahags- og viðskiptanefnd þegar frumvarpið var lagt fram í vor, þ.e. á 149. þingi. Langflestar voru þær jákvæðar en þó komu fram álit og umsagnir sem voru frumvarpinu öndverðar, annaðhvort í heild sinni eða einstökum atriðum. Þegar nánar er vikið að þeim virðist í nokkrum tilvikum um misskilning að ræða, ógreinilega hugtakanotkun, misskilning á þeim grundvelli, mistúlkun eða jafnvel oftúlkun, jafnvel ótta um að lögin muni leiða til íhlutunar um innri málefni félagasamtaka með þeim hætti sem fulltrúum félagasamtaka þykir óásættanlegt. Fram kom líka það sjónarmið að verið sé að hefta félagasamtök fullmikið með því að gera þau skráningarskyld sem almannaheillasamtök ef þau þiggi styrki frá hinu opinbera.

Fjallað er um þetta í 2. gr. frumvarpsins en þar segir að ef ríkið, sveitarfélög, opinberar stofnanir eða lögaðilar sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera styrki eða geri rekstrarsamninga við félög til almannaheilla sé þeim gert skylt eða það sett sem skilyrði að þau séu skráð í almannaheillafélagaskrá sem ríkisskattstjóri heldur utan um. Þetta eru þær kvaðir sem helst er kvartað undan en kannski má benda á það að félög sem ekki höndla með fé og þiggja ekki styrki frá hinu opinbera þurfa ekki að skrá sig sem félög til almannaheilla. Þetta er sem sagt valkvætt eins og fram hefur komið hér í dag.

Þá komu fram í umsögnum þær skoðanir að frumvarpið skerti í raun félagafrelsi og að jafnvel lítil félagasamtök myndu leggja upp laupana vegna íþyngjandi krafna í frumvarpinu, að einstaklingsframtakið myndi jafnvel heyra til sögunni. Þetta eru gild viðhorf sem ástæða er til að gefa gaum og það verður eflaust gert í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar á næstu vikum og mánuðum. Því verður þó að halda til haga að fyrir eru auðvitað ýmis skilyrði um starfsemi félaga, t.d. að þau séu skráð með kennitölu. Þau skilyrði eru ekki talin skerða félagafrelsið. Það er langsótt að líta svo á að skilyrðin í þessu frumvarpi séu skerðing á félagafrelsi. Öllum verður áfram frjálst að stofna félög.

Heyrst hafa óttaslegnar raddir um íþyngjandi kröfur. Um hvað er eiginlega verið að tala? Í fyrsta lagi virðast kröfurnar ekki vera íþyngjandi en þær eru tíundaðar töluvert ítarlega í frumvarpinu sem er gott og ætti að auðvelda þeim sem eru að fást við fjölbreytileg félagsstörf það verkefni sitt að skrá og hafa öll atriði í starfsemi félagsins eins og fara gerir.

Í öðru lagi eiga þessar kröfur bara við um félög sem ákveðið hafa að auka umfang sitt og fara að sýsla með fjármuni. Slíku auknu umstangi fylgir aukið skipulag og frumvarpið hjálpar til við slíkt skipulag.

Hvað varðar framlög einstaklinga, frumkvæði og sjálfboðaliðastörf eru það gríðarlega mikilvægir þættir, grundvallarþættir í samfélaginu. Að frumvarpið muni leiða til þess að draga máttinn úr félagsstarfi og þátttöku er úr lausu lofti gripið. Það getur allt eins þróast á hinn veginn, að skýrar og gegnsæjar leikreglur og vel skilgreind markmið hvetji margan til stuðnings við uppbyggileg málefni. Þáttur einstaklinga og frumkvæði þeirra verður áfram afgerandi, bæði innan félaga og utan. Þetta frumvarp eitt og sér mun ekki breyta því.

Herra forseti. Ég styð meginmarkmið þessa frumvarps, að auka gegnsæi og ábyrgð félagasamtaka sem gefa sig út fyrir störf til almannaheilla, þeirra félagasamtaka sem vilja njóta tiltekinnar réttarstöðu gagnvart stjórnvöldum og trúverðugleika gagnvart samfélaginu. Það mun bara leiða til aukinnar fagmennsku. Allt eru þetta mikilvæg atriði í íslensku samfélagi, í samfélagi þar sem við viljum að almannaheillasamtök gegni áfram margvíslegu og mikilvægu hlutverki.