150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

félög til almannaheilla.

181. mál
[16:10]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og tel tíma til kominn að við séum hér með eitt félagaform í viðbót, félagasamtök til almannaheilla, sem sé þá stýrt af sérstöku regluverki sem á betur við mörg félagasamtök sem ekki gætu athafnað sig vel innan annarra félagaforma sem eru samþykkt nú þegar. Ég er sammála þeirri hugmyndafræði að settur sé lagarammi um frjáls félagasamtök sem starfa að almannaheillum. Ég fagna því að frá því að frumvarpið kom fyrst fram á 149. þingi hafi þegar verið tekið tillit til umsagna og athugasemda sem bárust og þá sérstaklega vegna heimildar sem var upphaflega í frumvarpinu um að ráðherra gæti skyldað félag til að halda aukaaðalfund og að ráðherra hefði heimild til að slíta félagi. Þetta er núna komið til dómara og þarf dómsúrskurð til að þetta sé hægt. Ég tel það til mikilla bóta. Þá eru einnig gerðar aðrar breytingar sem eru heldur til bóta. Þó er enn eftir vinna í frumvarpinu og ég bendi á að Barnaheill telja margar greinar í frumvarpinu enn of óskýrar. Ýmislegt þarf að skýra.

Neytendasamtökin eru með athugasemd um skammstöfunina fta sem á að vera í heiti þeirra félagasamtaka sem ákveða að skrá sig inn í þennan ramma sem er verið að búa til. Það er ekki alveg ljóst hvort það er val eða hvort það er skylda að einkenna sig með fta-skammstöfunum á eftir nafni félagsins. Það virðist vera val um það og ég held að það hafi ekkert endilega verið samkvæmt greinargerðinni sem ég las, ég held að vilji hafi ekki endilega staðið til þess. Ég held að viljinn sé miklu frekar sá að valið standi á milli þess að skrá sig inn í þetta félagaform eða ekki, ekki að þegar viðkomandi er búinn að skrá sig inn í félagaformið taki hann þessa skammstöfun á eftir sem er fta.

Svo staldra ég sérstaklega við umsögn Landssambands ungmennafélaga vegna takmarkana í frumvarpinu þess efnis að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri verði að vera lögráða. Landssamband ungmennafélaga bendir á að þá komi það ekki til greina fyrir mjög mörg nemendasamtök og ungmennaráð hér og þar á landinu, þ.e. félög um almannaheill sem eru stofnuð og starfrækt af ungu fólki. Þetta er nokkuð sem ég held að við þurfum að taka tillit til vegna þess að ég get alveg ímyndað mér að það að fara inn í þetta félagaform verði ákveðinn gæðastimpill og mér finnst mjög slæmt ef við þurfum að útiloka unga fólkið og samtök þess frá því að eignast þann stimpil.

Þarna eru ýmis dálítið íþyngjandi ákvæði en samt er búið að taka tillit til margra athugasemda sem bárust á fyrra þingi. Ég vona að í frekari meðferð nefndarinnar á þessu ári lánist nefndinni að taka tillit til fleiri athugasemda og bæta frumvarpið þar með enn frekar. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa talað á undan mér og fagna þessu frumvarpi sem ég tel mikið til bóta þó að ýmissa smálagfæringa sé þörf.