150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

félög til almannaheilla.

181. mál
[16:15]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til laga um félög til almannaheilla. Mín skoðun er að frumvarp þetta sé til mikilla bóta. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort ekki þurfi að skilgreina betur hvaða félög eru félög til almannaheilla. Mig langar þess vegna að lesa eftirfarandi upp úr 35. gr. sem hefur heitið Sektir eða fangelsi vegna brota sem varða atkvæðagreiðslu á aðalfundi, með leyfi forseta:

„Sá maður skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum sem gerist sekur um eftirtaldar athafnir að því er varðar atkvæðagreiðslu á aðalfundi samkvæmt IV. kafla:

a. aflar sér eða öðrum ólöglegs færis á að taka þátt í atkvæðagreiðslu eða ruglar atkvæðagreiðslu með öðrum hætti,

b. leitast við með ólögmætri nauðung, frelsisskerðingu eða misbeitingu aðstöðu yfirboðara að fá félagsmann eða umboðsmann hans til þess að greiða atkvæði á ákveðinn hátt eða til þess að greiða ekki atkvæði,

c. kemur því til leiðar með sviksamlegu atferli að félagsmaður eða umboðsmaður hans greiði ekki atkvæði, þó að hann hafi ætlað sér það, eða að atkvæði hans ónýtist eða hafi önnur áhrif en til var ætlast,

d. greiðir, lofar að greiða eða býður félagsmanni eða umboðsmanni hans fé eða annan hagnað til þess að neyta ekki atkvæðisréttar síns eða til að greiða atkvæði félaginu í óhag eða

e. tekur við, fer fram á að fá eða lætur lofa sér eða öðrum hagnaði til þess að neyta ekki atkvæðisréttar síns eða til að greiða atkvæði félaginu í óhag.“

Ég endurtek, herra forseti, að ég held að þetta frumvarp sé til bóta. Ég reikna með því að Miðflokkurinn muni leggja sitt af mörkum til að það fái hér góða þinglega meðferð og tel að svo verði.