150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[16:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur starfsemi smálánafyrirtækja verið gagnrýnd frá upphafi. Þau komu inn á markaðinn árið 2010 þegar margir stóðu veikir fyrir. Þau beina markaðssetningu sinni mjög ágengt að ákveðnum aldurshópum og fólki sem hefur lítið af peningum handa á milli. Stjórnvöld hafa líka verið gagnrýnd fyrir að vernda ekki neytendur fyrir þessum fyrirtækjum, að þau skuli ekki vera krafin um ákveðin skilyrði, gerð leyfisskyld og að umgjörð um reksturinn sé ekki nægilega skýr. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá þetta frumvarp sem ég er sannarlega búin að bíða eftir frá hæstv. ráðherra. Mér finnst þetta vera afar lítið og ekki taka á stærsta vandanum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi kynnt sér frumvarp sem ég er 1. flutningsmaður að og mælt var fyrir á dögunum og tekur frekar á rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja.