150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[16:33]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég hef kynnt mér það. Það er alveg rétt að við förum auðvitað töluvert aðra leið í þessu frumvarpi. Ég vil þó ítreka að þetta frumvarp er ekki eina skrefið sem við stígum í því að lagfæra og styrkja enn frekar umhverfi utan um þessi lán og ég nefndi það sérstaklega í framsöguræðunni. Ég vildi þó stíga þetta skref núna á meðan önnur vinna er í gangi í fjármálaráðuneytinu sem birtist vonandi fljótt sem frumvarp og svo aðrar tillögur sem eru í frekari skoðun á milli ráðuneytisins og annarra ráðuneyta. Ég ætla ekki að standa hér og segja til að mynda að smálán séu góð hugmynd. Það er bara mjög vond hugmynd að taka smálán. Ég veit að það eru viðkvæmir hópar sem taka alla jafna smálán. Ég þekki það sömuleiðis. Við erum til að mynda ekki að leggja til leyfisskyldu, enda finnst mér skipta miklu máli að við gerum greinarmun á milli ólögmætra smálána og svo annarrar þjónustu sem maður þarf að borga töluvert fyrir og er ekki endilega hagstæð en er þó fullkomlega lögmæt. Leyfisskylda er íþyngjandi og hamlar nýsköpun og samkeppni á þeim markaði og það fannst mér sömuleiðis vega þungt í vinnunni.