150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[16:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér finnst hins vegar mjög mikilvægt að sett séu ströng skilyrði í kringum starfsemi slíkra fyrirtækja, fyrirtækja sem valda slíkum usla meðal ákveðinna hópa í samfélaginu. Nú er það þekkt að stærsti hluti þeirra sem leita til embættis umboðsmanns skuldara, ég held að það séu yfir 80%, á í vanda vegna viðskipta við smálánafyrirtæki. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra bara beint hvort hún sé þeirrar skoðunar að það sé rétt að slík fyrirtæki séu án leyfisskyldu í ljósi reynslunnar. Neytendastofa hefur beitt stjórnvaldssektum sem ekki hafa virkað nokkurn skapaðan hlut en ef fyrirtækin væru leyfisskyld og þyrftu að uppfylla ákveðin skilyrði væri hægt að taka af þeim leyfið. Það er svolítið gott vopn, tel ég vera, gagnvart fyrirtækjum sem fara ekki að lögum.