150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[16:39]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er vissulega ein tillagan í skýrslu starfshópsins þar sem t.d. er lögð til takmörkun á lánveitingum á tilteknum tímum sólarhringsins en það er mikið framboð af öðrum tegundum neytendalána á markaði og sjálfvirknivæðingin er slík að það er svo sem, að ég tel, alltaf hægt að nálgast lánsfé á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Ég veit ekki til þess að fyrir liggi gögn eða rannsóknir um tengsl skuldavanda við lántökur á tilteknum tímum sólarhrings en við höfum heyrt sögur af því hvenær fólk er að taka þessi lán og annað slíkt. En ávinningurinn er óljós. Það yrði erfitt að fylgja reglunni í framkvæmd eða með eftirliti þannig að við leggjum það ekki til í frumvarpinu. En það er sömuleiðis eitthvað sem að sjálfsögðu er hægt að skoða frekar og eins og ég nefndi var þetta lagt til í skýrslunni þar sem voru lagðar til margar tillögur sem við síðan fórum yfir og völdum úr.