Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[16:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún sé sammála því sem kom fram í Morgunblaðinu í morgun í viðtali við Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna, þar sem hann segir að þetta sé bara sniðið fyrir smálánafyrirtækin, þetta hafi engin áhrif á starfsemi smálánafyrirtækja og það þurfi að breyta þar ákveðnum hlutum og eitt af því eru vextir, yfir 50% vextir. Það eru ekki svo mörg ár, kannski eitthvað á annan tug ára, síðan þetta voru taldir okurvextir. Hvers vegna í ósköpunum getum við ekki bara miðað við að það eigi bara ekkert að vera hærri vextir en dráttarvextir? Það eru töluvert háir vextir. Ég spyr hvort hún sé ekki sammála mér í því að það væri bara ágætt að setja markið þar, hvort það myndi ekki eitthvað slaka á þessu.