150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[16:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. En eins og ég segi fæ ég bara ekki skilið þessa baráttu við smálánafyrirtækin, að við skulum ekki vera löngu búin að ná tökum á þeim. Ég hef á tilfinningunni í sambandi við innheimtu þessara lána að verið sé að ráðast á þá sem verst eru staddir og það fer ekki á milli mála að þeir sem verst eru staddir fjárhagslega eru að taka þessi lán. Þau eru hryllingur og kostnaðurinn og allt í kringum þau. Ég hef tilfinningu fyrir því að öll baráttan sé með svipuðu móti og ef við værum bara með vígt vatn og kross. Það myndi gagnast jafn mikið. Við erum ekki að berja í borðið og stoppa þetta. Við virðumst sífellt bæta einhverju inn en það hlýtur að vera hægt að stoppa þetta, sérstaklega þegar maður fer að horfa til þess að þessi fyrirtæki eru skráð t.d. í Danmörku. Það er alveg óskiljanlegt að það skuli ekki vera stoppað.