150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[16:45]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég sæi leið til að láta lánin einhvern veginn hverfa eða aðferð til að koma í veg fyrir að neytendum yrði boðið að taka óhagstæð, óskynsamleg, ólögmæt lán myndi ég leggja slíka leið til. Það sem ég hef ekki trú á er að leiðin til þess að ná utan um vandann sé eingöngu sú að neytendur séu nægilega upplýstir eða Neytendastofa hafi nægilega burði til að hafa eftirlit. Þessir hlutir skipta máli. En það sem skiptir máli er að það bíti þá sem bjóða ólögmæt lán þannig að það hætti að borga sig. Frumvarp fjármálaráðherra kemur þar sterkt inn, þ.e. að það verði ekki hægt í kerfum að innheimta lán ef þau falla utan okkar ramma. Svo getum við rætt hvort 50% eigi til að mynda að vera lægri tala. Það er sá rammi og sú meðferð sem málið fer í hér. En það skiptir máli (Forseti hringir.) að þetta bíti þá sem bjóða lánin þannig að það borgi sig ekki og þannig falli þetta um sjálft sig.