150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[17:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það má alveg rifja upp söguna á bak við slíka starfsemi en ég kann hana ekki utan að. Við fjölluðum um þetta í þinginu árið 2012 eða 2013, minnir mig, og gott ef lögin voru ekki sett þá. Við getum flett því upp. Hvað sem því líður stöndum við í þessum sporum og höfum hér tækifæri til að snúa við óheillaþróun, alveg sama hvaða skref voru stigin í fortíðinni. Þegar við vorum að fjalla um smálánin í þinginu voru mjög margir sem vildu banna þá starfsemi. En það voru aðrir hér inni sem sögðu að það mætti alls ekki gera heldur ætti að fara með fjármálalæsi inn í framhaldsskólana. Þá myndi unga fólkið fatta að það væri ekki góð hugmynd að taka smálán. En auðvitað er það ekki þannig. Þeir sem tala þannig hafa t.d. ekki haft unga fíkla á heimili sínu. Þetta er stórmál. Þetta eru fyrirtæki sem valda usla. Það er sjálfsögð krafa til okkar hér að við verjum neytendur betur en við gerum og betur en hæstv. ráðherra neytendamála leggur til með frumvarpi sínu.