150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[17:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um neytendalán. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem segist styðja frumvarpið, hvaða áhrif hún sjái fram á að það hafi, hvort það muni stoppa eitthvað. Stærsta spurningin er að Neytendastofa á að fylgjast með þessu og hún getur skrifað og krafist upplýsinga frá smálánafyrirtækjunum. Þau hafa sýnt hingað til að þau svara bara engu. Ég efast ekki um að þau muni neita að svara Neytendastofu og Neytendastofa hefur engin úrræði til þess að gera eitt eða neitt í málinu. Hún getur á engan hátt þvingað smálánafyrirtækin að borðinu til að gera upp sitt. Síðan eru það vextirnir. Mér finnst að fyrst við erum á annað borð að gera þetta hefði verið hægt að setja dráttarvexti, ekki 50% vexti heldur bara venjulega dráttarvexti og ekkert umfram það.

Hv. þingmaður kom inn á einn stóran fíl í þessu kerfi. Það er Creditinfo. Það er alveg með ólíkindum hvernig það fyrirtæki getur hagað sér gagnvart þeim einstaklingum sem þarna eru undir. Það virðast einhvern veginn ekki gilda almenn siðferðisleg lögmál um það fyrirtæki. Er hún ekki sammála mér um að þar hefði líka þurft að taka verulega á? Síðan er hitt: Er hún sammála mér um að fyrst á annað borð er verið að gera þetta skuli gera það vel og fara eftir t.d. því sem Neytendasamtökin benda á? Þau þekkja málið alveg frá A til Ö og segja að frumvarpið sé gagnslaust. Það hefði kannski verið nær að gera þetta mun betur og sjá til þess að það virkaði í þetta sinn því að við virðumst alltaf vera að grafa sama skurðinn.