150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[17:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hef lýst yfir stuðningi við frumvarp hv. þingmanns. Ég tel það að mestu leyti falla að mínum hugmyndum um smálán á Íslandi og við höfum nú rætt þetta á svipuðum nótum hér í þinginu og annars staðar. Í því eins og öðru þarf að snikka til eins og gjarnan er gert þegar mál koma til umfjöllunar og fá umsagnir. Mér finnst áhugaverð nálgun að ræða saman stjórnarfrumvarp og frumvarp þingmanns. Ég held að við þurfum alltaf að velta því upp hvort við eigum að fara nýjar leiðir í starfi okkar á þingi. Ég ætla ekki að lýsa yfir neinum sérstökum stuðningi við það en mér finnst áhugavert að ræða það almennt og er kannski bara upptakturinn að því að við skoðum breytt vinnubrögð í nefndum þegar mál liggja saman. Það hefur stundum verið gert, sérstaklega með þingmannamál. Þetta er alla vega áhugaverð nálgun og ég held að breytingar sem gætu verið gerðar á þessu stjórnarfrumvarpi sé að einhverju leyti að finna í frumvarpi hv. þingmanns. Hvort sem frumvörpin verða rædd saman eða ekki treysti ég því bara að hún ásamt öðrum þingmanni og þar af leiðandi fulltrúa Vinstri grænna nái fram ákveðnum breytingum sem ég alla vega tel þörf á.