150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[17:31]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður byrjaði á því að lýsa stuðningi við frumvarpið en vill greinilega samt ganga miklu lengra en frumvarpið gerir. Vildi jafnvel gera smálánafyrirtæki ólögleg með öllu. Að einhverju leyti vill hún ganga í ólíka átt við frumvarpið sjálft. Þá á ég aðallega við hvort eftirlitið eigi að vera í höndum Neytendastofu eða Fjármálaeftirlitsins. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort það væri rétt skilið hjá mér að þingmaðurinn væri jafnvel til í að skilgreina smálánafyrirtæki sem banka í útlánastarfsemi. Þá væri hægt að færa starfsemina undir Fjármálaeftirlitið, en við gætum gert meira. Við gætum krafið þau um ákveðið eiginfjárhlutfall, rukkað þau um bankaskatt og gert þeim lífið mjög leitt með því að skilgreina þau þannig. Ég vildi bara fá álit hennar á því.

Svo vildi ég líka spyrja um skoðun hennar á okurvöxtum og hvort það þurfi að taka þá sérstaklega til greina og jafnvel gera lagabreytingar í sambandi við okurvexti. Það myndi líka takmarka mjög starfsemi þessara fyrirtækja. Ég tel að með starfsleyfisskyldu og með því að fella þessi fyrirtæki undir FME mætti gera að verkum að ef FME tekst ekki að ná í upplýsingar frá þessum fyrirtækjum verði hægt að svipta þau starfsleyfi. Það getur Neytendastofa hins vegar ekki gert þannig að ég vildi fá svör við þessu tvennu.