150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[17:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður nefndi held ég að það sé einlægur vilji okkar allra, ég trúi því alla vega, að ná utan um þetta með viðunandi hætti og ég treysti því líka þar sem frumvarpið tekur á ákveðnum þáttum á meðan innheimtumálin, sem ég held að séu líka mjög mikilvæg, koma úr fjármálaráðuneytinu, og eins og ráðherra nefndi áðan á hún í samtali við dómsmálaráðuneytið um tiltekna þætti málsins. Ég hefði viljað að við gætum náð utan um þetta allt í einum bandormi en sú er ekki raunin. Þetta er áfangi, þetta eru skref, þau eru lítil. En þetta eru samt sem áður skref og ég fagna hverju skrefi sem við tökum til að ná betur utan um þetta ómögulega mál sem við höfum staðið frammi fyrir allt of lengi.