Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

náttúruvernd.

65. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, um sorp og úrgang. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason og Inga Sæland og þakka ég fyrir það. Frumvarpið var áður flutt af núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

Í 1. gr. frumvarpsins stendur:

„Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Óheimilt er að fleygja eða skilja eftir sorp eða annan úrgang í náttúru og á vegum landsins.“

Í 2. gr. stendur.

„Á eftir 2. mgr. 90. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Sá skal sæta sektum, að lágmarki 100.000 kr., sem brýtur gegn ákvæði 2. mgr. 17. gr.“

Í 3. gr. segir:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Hér er stutt greinargerð, virðulegur forseti:

Frumvarp þetta hefur áður verið flutt á 143. löggjafarþingi, 145. löggjafarþingi og 149. löggjafarþingi. Eins og ég sagði áðan flutti núverandi hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson þetta mál fyrst.

Sorp og annar úrgangur á víðavangi er augljóst lýti á umhverfinu. Sé látið óátalið að sorpi og öðrum úrgangi sé fleygt í náttúrunni skerðast þau verðmæti sem í henni felast. Erlendis er þekkt að greiða þurfi háar sektir fyrir að henda sorpi og úrgangi á víðavangi.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði aðgerðir til að halda náttúrunni hreinni og stuðla að bættu hugarfari.

Í samræmi við umræður sem fram fóru um frumvarpið á 149. löggjafarþingi hafa verið gerðar orðalagsbreytingar á ákvæðum þess. Er það gert í þágu skýrleika og er í samræmi við orðnotkun laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Jafnframt hefur gildissvið ákvæðisins verið rýmkað.

Ég vil almennt segja um þetta að það er mikilvægt að löggjafinn hafi eitthvert sektarákvæði til að taka á þessum málum. Sem betur fer er víða góð umgengni og ég tek eftir því í mínu kjördæmi þar sem ég fer víða um að eftir að sveitarfélögin breyttu lögreglusamþykktum sínum og ákváðu að banna húsbílum að leggja hvar sem er í náttúrunni hefur umgengni mikið lagast. Því fylgdi áður alls konar óþrifnaður og óþverri. Mér finnst að við Íslendingar höfum að mörgu leyti gert ágætlega. Ég verð meira var við sorp og óhreinindi í sveitarfélögunum og þar þurfum við að taka okkur tak og við þurfum að beina því til unga fólksins að ganga vel um landið okkar fallega og kenna fólki að meta hreina náttúru.