150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

náttúruvernd.

65. mál
[17:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, sorp og úrgang, að óheimilt sé að henda sorpi á víðavangi, og ég styð frumvarpið heils hugar. En ég geri athugasemdir við eitt. Það er sektargreiðslan. Sá skal sæta sektum að lágmarki 100.000 kr. sem brýtur gegn ákvæði þessu. Ef við erum með tvo einstaklinga, annar á örorku- eða lífeyrislaunum, hinn á háum bankalaunum, 3 milljónir á mánuði, hvorn bítur þetta meira? Ég myndi vilja, og er eiginlega farinn að mæla með því, tekjutengingu eins og ég veit að þeir gerðu í Finnlandi með hraðasektir. Við gætum haft fastar sektir, ég veit ekki hvernig það væri ef um væri að ræða fyrirtæki í því samhengi, við gætum svo sem líka haft fastar sektir fyrir það. En í þessu tilfelli bítur 100.000 kr. sektin rosalega misjafnt, hún bítur nákvæmlega eftir því hversu miklar tekjur maður hefur. Þar af leiðandi vil ég fá svar við því hvort hv. þingmanni finnist þetta eðlileg upphæð í því samhengi, hvort ekki væri eðlilegra að tekjutengja sektina svo hún biti alla jafnt.