150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

náttúruvernd.

65. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa áhugaverðu fyrirspurn. Ég hafði í sjálfu sér ekkert velt því fyrir mér við samningu frumvarpsins og hef kannski yfir höfuð ekki velt því fyrir mér hvernig sektir bíta fólk. En auðvitað er þetta hárrétt ábending hjá hv. þingmanni og það er ekki að sökum að spyrja þegar hann kemur í ræðustól að hann minnist alltaf á þá sem minna mega sín. Ég get alveg tekið hatt minn ofan fyrir honum með það, hvenær sem er og hvar sem er. Það er mjög mikilvægt að hugsa um það. En svona heilt yfir eigum við að ganga þannig um, hvort sem við höfum há laun eða lág, að landið sé jafn gott og þegar við komum að því. Það er það sem ég legg aðaláherslu á.

Ég vona að þegar hv. umhverfis- og samgöngunefnd fjallar um málið, en ég mun vísa málinu til hennar, komi sú ábending fyrir nefndina og sjálfsagt að ræða hana. Ég mun alls ekki leggjast gegn því í þessum ræðustól að skoða þetta. Mér finnst þó að það þurfi líka almennt að gera á víðari grunni. Ég hef ekki þá þekkingu á lögum eða sektarákvæðum að vita hvernig þetta getur bitið. En mér finnst þessi fyrirspurn afar áhugaverð.