150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

náttúruvernd.

65. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni enn og aftur. Það síðasta sem hann sagði, um unga fólkið, börnin okkar, er mjög mikilvægt. Í gamla daga þegar ég var að alast upp fékk maður far með öskubílnum út á Hamar þar sem öllu var sturtað í sjóinn í Vestmannaeyjum. Þetta vorum við alin upp við. Það dytti ekki nokkrum manni í hug í dag. Það fleygir enginn sorpi í sjóinn á nokkrum einasta bát í kringum Íslandsmið, þannig að okkur miðar vel áfram. Ég tek heils hugar undir að það er gríðarlega mikilvægt að við ræktum þetta með börnunum okkar og samfélaginu til að landið okkar sé hreint og að öll umgengni, hvort sem hún er innan eða utan dyra, sé í samræmi við það sem við viljum sjálf og við göngum um eins og við viljum að aðrir geri.

Varðandi útfærslur á því hvernig bófarnir verða gripnir þekkir kannski gamall lögreglumaður það betur en ég. Þetta gerist auðvitað oft þar sem fólk er eitt úti á víðavangi. En ég vil þó benda á að mjög víða eru landverðir sem vinna mjög gott starf. Kannski þyrfti að tengja þetta eitthvað starfi þeirra. Þeir eru oft með ábendingar um það sem miður fer á hálendinu, óvarlegan akstur og annað slíkt. Þeir sinna mikilvægum störfum í þessu. Ég er reyndar ekki bara tala um hálendið, ég er að tala um landið allt. En þetta er umhugsunarefni. Í flestum tilfellum þegar lögregla er á ferð myndi hún grípa þá sem væru að óhreinka landið með slíkri framkomu sem við erum að reyna að koma í veg fyrir með þessum lögum. Þó að 100.000 kr. hafi kannski ekki fælingarmátt fyrir alla held ég að þær hafi það fyrir allflesta.