150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

stimpilgjald.

93. mál
[18:06]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, í stuttu máli að lögin falli brott og stimpilgjald verði fellt niður. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Björn Leví Gunnarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Þetta er einfalt mál og þess vegna ætla ég ekki hafa mjög langt mál um það. Frumvarpið gerir einfaldlega ráð fyrir því að stimpilgjald falli brott að fullu í tveimur áföngum, að hálfu frá næstu áramótum og að fullu frá 1. janúar 2021. Þetta gjald er barn síns tíma. Það leggst með mjög ójöfnum hætti á viðskipti bæði einstaklinga og fyrirtækja með eignir. Hér er fyrst og fremst um að ræða gjald á viðskipti með afmarkaðan hluta eigna, þ.e. fasteignir og skip. Fyrir þinginu liggur mál eða í það minnsta áform um afnám á stimpilgjaldi á skip og einnig áform um verulega lækkun á stimpilgjaldi vegna húsnæðiskaupa einstaklinga, fyrstu kaupa hið minnsta. Hér er einfaldlega lagt til að skrefið verði stigið til fulls og stimpilgjald fellt brott að fullu.

Gjaldið endurspeglar ekki á nokkurn hátt kostnað hins opinbera við að halda utan um skráningu þessara viðskipta. Það er hindrun á viðskipti, gerir fasteignakaup einstaklinga kostnaðarsamari en ella og brottfallið væri þess vegna kærkomin örvun fyrir fasteignamarkaðinn eins og hann er í dag. Þetta mismunar líka fyrirtækjum eftir eðli starfseminnar. Það er verið að leggja sérstakan skatt á viðskipti fyrirtækja með eignir, fyrirtæki sem eru í, getum við sagt, fjármagnsfrekri starfsemi, fasteignastarfsemi og viðskiptum með fiskiskip eða kaupskip, og því leggst gjaldið með mjög ójöfnum hætti á atvinnulíf almennt.

Auðvitað er vert að hafa það líka í huga að skattar hafa verið hækkaðir mjög mikið á undanförnum árum á bæði atvinnulíf og fyrirtæki. Á þessu ári er áætlað að ríkið hafi um 120 milljarða í viðbótartekjur vegna hærri skattlagningar heldur en var hér fyrir réttum áratug, áður en gripið var til umtalsverðra skattahækkana sem voru til þess að fjármagna rekstur ríkissjóðs í mikilli efnahagsniðursveiflu. Þær voru gagnrýndar á þeim tíma fyrir að vera mjög íþyngjandi fyrir bæði heimili og atvinnulíf á viðkvæmum tímapunkti en rökstuðningurinn þá var að skattstofnar hefðu rýrnað svo mjög í hruninu að nauðsynlegt væri fyrir ríkið að hækka skatta svo mikið sem raun bæri vitni til að ná endum saman. Nú er staðreyndin hins vegar sú að núverandi ríkisstjórn er að festa þessar skattahækkanir í sessi. Allir skattstofnar hafa verið hér í hámarki, hámarksafrakstri, á undanförnum árum án þess að teljandi skattalækkanir hafi orðið. Og þó svo að skattalækkanir séu kynntar í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 koma ýmsar skattahækkanir á móti þannig að nettóbreytingin er harla lítil.

Hér er einföld aðgerð til þess að lækka skatta bæði á einstaklinga og fyrirtæki og nota um leið tækifærið til að fella úr gildi skatt sem er að mínu viti ósanngjarn, mismunar fyrirtækjum eftir rekstrarformi, mismunar einstaklingum eftir eignarformi, við leggjum jú ekki skatta á önnur eignaviðskipti einstaklinga en fasteignir, svo dæmi sé tekið. Við leggjum ekki skatta á viðskipti með hlutabréf jafnvel þó svo að það séu hlutabréf í fyrirtækjum sem sinna fyrst og fremst fasteignarekstri. Þess vegna tel ég einfaldlega að þessi skattlagning sé tímaskekkja og löngu tímabært að leggja hana af. Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þetta mál og vænti þess, frú forseti, að það muni ganga til efnahags- og viðskiptanefndar að þessari umræðu lokinni.