150. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2019.

löggæsla og innflutningur sterkra vímuefna.

[10:47]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum að hér hefur ríkt ákveðin vargöld hvað lýtur að flæði sterkra vímuefna til landsins. Hér hafa verið tekin yfir 35 kíló af óvenjusterku kókaíni sem dæmi. Lögreglan veit mjög mikið um það hvaðan efnið kemur. Það er það hreint og það sterkt að lögreglan telur jafnvel að við séum farin að fá efni milliliðalaust frá framleiðanda. Það er vitað um Íslendinga sem vinna í Suður-Ameríku að því að greiða götu þessara efna inn til landsins. En hver er staða löggæslunnar í landinu? Hvað erum við að gera til að spyrna virkilega við fótum? Jú, á bls. 203 í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að í stað þess að efla löggæsluna, eins og ríkisstjórnarflokkunum hefur orðið tíðrætt um á hinu háa Alþingi, er dregið úr fjárveitingum til hennar um 403 millj. kr. Samtals er dregið úr fjárveitingum til annarrar gæslu í landinu um 487 millj. kr. Þetta er á við 27 stöðugildi.

Mig langar að beina til hæstv. dómsmálaráðherra spurningunni: Er hún meðvituð um hvað vandinn er gríðarlega mikill? Ef svo er, hvað erum við þá virkilega að gera í stöðunni? Eins og ég lít á það er staðan grafalvarleg og algjörlega óásættanleg. Það er algjört grundvallaratriði, og borgararnir krefjast þess, að hér ríki ekki vargöld hvað þetta varðar í landinu heldur séum við þokkalega trygg hvað löggæsluna okkar varðar.