150. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2019.

löggæsla og innflutningur sterkra vímuefna.

[10:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið. Það er athyglisvert að þær upplýsingar sem ég ber hér á borð, fyrir utan að þær standa á bls. 203 í fjárlagafrumvarpinu, fengum við inn til okkar frá gesti frá BSRB, hvorki meira né minna en yfirhagfræðing BSRB, sem kom á fund fjárlaganefndar um daginn og sagði okkur nákvæmlega upp á krónu hver samdrátturinn væri í löggæslunni og hvað það væri ígildi margra stöðugilda. Ég ætla ekki að rengja hana um það.

Ef það er hins vegar verið að gera svona afskaplega mikið í löggæslumálum og annað slíkt, hvers vegna er þá ástandið eins og það er? Og ég spyr aftur: Er þá ekki ástæða, hæstv. dómsmálaráðherra, til að gera betur fyrst við virðumst vera á hraðri niðurleið hvað þetta varðar í samfélaginu og ástandið hefur aldrei verið alvarlegra?