150. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2019.

Landsréttur.

[11:02]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mér þykir leitt að hæstv. dómsmálaráðherra líti svona léttvægt á hlutverk sitt. Það er engin þvæla að tala um að Landsréttur sé haltur þegar alla þessa dómara vantar. Það er óvart þannig, virðulegur forseti, að í umræðum og aðdraganda þess að Landsréttur var settur á laggirnar var talað jafnvel um að það ættu að vera 18 dómarar, bara svo því sé haldið til haga. Ég hef fengið að heyra innan úr kerfinu að talað hafi verið um að nauðsynlegt væri að hafa þá 18 en það var ákveðið að hafa þá 15 til sparnaðar. Í augnablikinu eru þeir 13, verða 11 um áramót og það verður að segjast eins og er að mjög margir hafa áhyggjur af ástandinu, m.a. formaður dómstólasýslunnar. Hæstaréttardómarinn Benedikt Bogason kom fram í fjölmiðlum í síðustu viku og talaði um að það væri ekkert að frétta úr ráðuneytinu þannig að það að hæstv. ráðherra komi hingað og tali um einhverja þvælu (Forseti hringir.) þegar þeir sem starfa í kerfinu lýsa yfir miklum áhyggjum segir mér að hæstv. dómsmálaráðherra sé ekki meðvituð um alvarleika málsins.