150. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[11:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég þakka flutningsmanni nefndarálitsins fyrir ítarlega og góða ræðu um þetta flókna mál. Það er að mörgu að hyggja þegar samið er um réttindi og reynt að girða fyrir mistök, holur og pytti sem hægt væri að lenda í þegar leysa þarf úr málum sem þessum. Hins vegar sáum við fyrir skömmu fréttir um að samningar hefðu náðst, að Bretar og Evrópusambandið hefðu náð samningum. Breski forsætisráðherrann hvetur ráðherra sína til að samþykkja samninginn. Það er reyndar athyglisvert að hvetja bara ráðherrana, eflaust þurfa fleiri hvatningu. Evrópusambandsmegin voru viðkomandi ráðherrar einnig hvattir til að samþykkja samninginn. Það verður forvitnilegt að sjá nánari útlistun á honum. Hvernig lítur hið nýja samkomulag milli Breta og Evrópusambandsins út? Hverjar eru breytingarnar frá fyrra samkomulagi? Við sem fylgjumst með stjórnmálum bíðum spennt eftir að sjá og sjálfsagt margir fleiri, viðskiptamenn og aðrir.

Það er ánægjulegt, ef satt reynist, að samkomulag hafi náðst og ánægjulegra verður það nái menn beggja megin sundsins að samþykkja það. Það mun létta töluvert á mörgu. Við horfum eftir sem áður fram á tímabil sem þá tekur við, svokallað aðlögunartímabil, sem er ágætlega fjallað um í frumvarpinu. Fyrirvari sá sem Miðflokkurinn gerir við málið snýr að nokkru leyti að aðlögunartímabilinu. Það er rétt hjá flutningsmanni nefndarinnar að fyrirvarinn er að sjálfsögðu almennur en hann er líka sértækur að því leytinu til að við gerum fyrirvara og athugasemd um að fasteignakaup skuli áfram vera heimiluð á aðlögunartímabilinu. Ég veit ekki hvort látið verður á það reyna hvort hægt verði að halda þeim fyrir utan, hvort sú útfærsla muni eiga sér stað. Til að vera alveg heiðarlegur leggjum við ekki fram breytingartillögu í þá veru og ég held að það hefði orðið til þess að flækja málið á síðustu stundu að gera slíkt. Engu að síður höfum við fyrirvara á því að í þá mánuði eða þau ár sem aðlögunartímabilið stendur yfir verði áfram heimilt að kaupa hér fasteignir, þar á meðal lönd. Við höfum hins vegar fullan skilning á því, og það er mjög eðlilegt, að þau kaup sem hafa gengið í gegn gildi áfram. Það væri mjög óeðlilegt af okkur og óábyrgt að taka einhverjar ákvarðanir sem myndu ógilda kaup aftur í tímann sem á þeim tíma giltu um ákveðin lög og reglur. Slíkt væri ekki okkur til sóma út á við. Við leggjum mikla áherslu á að eiga góð samskipti við erlend ríki og það er reyndar grundvöllur fyrir Ísland. Fyrir eyju í Atlantshafi eru alþjóðaviðskipti og alþjóðasamskipti gríðarlega mikilvæg. Þess vegna getum við ekki látið svona hluti virka afturvirkt en það hefði mögulega verið tækifæri til að taka aðlögunartímabilið út fyrir sviga.

Að því sögðu munum við styðja þetta mál. Við höldum þessum fyrirvara til haga, það er mjög mikilvægt að þeir komi fram. Fyrir mitt leyti tel ég að það samkomulag sem hér er til umræðu sé ágætt, taki á því helsta sem hefur verið fjallað um að svo komnu máli en ég vil halda þessu til haga.

Forseti. Ég held að það sé líka mikilvægt að þingið, í það minnsta utanríkismálanefnd, fái fljótlega viðbrögð frá utanríkisráðuneytinu við þeim nýju fréttum sem bárust í morgun um samninginn og að þegar ráðuneytið hefur fengið færi á að kafa ofan í samninginn og sjá hvort þar sé eitthvað sem hefur áhrif á það sem við erum að gera hér, hvort við eigum að breyta einhverju fleiru o.s.frv.

Herra forseti. Ég læt þessu lokið, vil bara halda til haga þeim fyrirvara sem Miðflokkurinn gerir varðandi fasteignakaup á aðlögunartímabilinu.