150. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[11:20]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir þakkir til Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur fyrir ræðuna en hún fór mjög vel yfir nefndarálitið og þær helstu spurningar sem vöknuðu hjá okkur í hv. utanríkismálanefnd. Ég verð að viðurkenna að þegar þetta frumvarp kom inn hugsaði ég: Jæja, getum við loksins farið að hætta að tala um Brexit? En það eru víst engar líkur á að það sé alveg í bígerð. Eflaust munum við kalla til enn og aftur ráðherra og embættismenn til að fylgja eftir þeim samningi sem nýjustu fréttir benda til að gerður hafi verið, að því gefnu að hann verði samþykktur.

Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og í nefndarálitinu erum við að tryggja réttindi borgaranna fyrst og fremst og ákveðna gagnkvæmni. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom aðeins inn á fasteignakaupin og við ræddum þau svolítið í nefndinni. Þetta snýst fyrst og fremst um gagnkvæmni, að breskir ríkisborgarar muni hafa hér á landi þau réttindi sem íslenskir ríkisborgarar hafa í Bretlandi. Það var í rauninni grunnurinn í frumvarpinu og því pólitíska samkomulagi sem varð að veruleika á milli íslenskra og breskra stjórnmálamanna.

Ég ætla líka að leyfa mér að segja að Brexit-ævintýrið allt saman hefur verið saga um hvernig á ekki að gera hlutina. Ég ætla ekki að hafa skoðun á því hvort það sé rétt hjá Bretum að fara úr Evrópusambandinu eða ekki en a.m.k. var tekin ákvörðun um að greiða atkvæði um það. Niðurstaðan liggur fyrir. Það hefur eiginlega verið sorglegt að fylgjast með framvindunni í kjölfar þeirrar atkvæðagreiðslu. Við í hv. utanríkismálanefnd heimsóttum t.d. Bretland á síðasta ári og ræddum þar við breska þingmenn og einnig skoska. Ég verð að viðurkenna að ég hef miklu meiri samúð með þeim skosku þar sem þeir höfðu líka nýlega haft atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Þá var aðild að Evrópusambandinu hluti af því að vilja vera áfram í Stóra-Bretlandi. Atkvæðin hjá Skotum féllu almennt í þá átt að vilja ekki fara úr Evrópusambandinu. Ég hef fyrir vikið mikla samúð með skoskum þingmönnum í þessum efnum en kannski aðeins minni með þeim bresku sem mér fannst vera svolítið eins og hauslausar hænur að elta sjálfa sig og geta ekki farið í að framkvæma það sem hafði komið út úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sem ákveðið var að fara í.

Ég efast ekki um að þetta verði tekið upp í mörgum bókum og geti orðið lærdómur í mörgum efnum.

Ég vona þó sannarlega að þeim lánist eitthvað núna, að þeir séu núna að ganga út með samning og þá erum við þó búin að tryggja þessi réttindi í ákveðinn tíma. Mér finnst líka mjög mikilvægt að það komi fram í umræðunni sem kom skýrt fram í máli bæði breskra þingmanna og embættismanna að það er enginn vilji til að loka landinu eða hætta samskiptum við Íslendinga, frekar en svo sem aðra. Við höfum gríðarlegra hagsmuna að gæta á Bretlandi. Við flytjum mikið út af fiski til Bretlands og höfum alltaf gert, auk þess sem ferðaþjónustan og flugið er stóriðnaður sem tengir okkur saman.

Ég þakka líka ráðherra og ráðuneytinu fyrir það hvernig haldið hefur verið á þessum málum. Við höfum verið upplýst um það ítrekað í utanríkismálanefnd hver staðan sé. Vorkunn mín liggur hjá embættismönnum sem margoft hafa mætt á fundi bara til að greina frá stöðunni og svo breyttist staðan kannski bara kvöldi seinna þegar umræður áttu sér stað í breska þinginu. Það er svolítið þannig sem þetta mál hefur verið.

Eins og ég segi munum við því miður ekki geta hætt að tala um Brexit. Það kemur örugglega fljótlega aftur inn í utanríkismálanefnd og ég geri ráð fyrir því að við munum kalla eftir því að sjá hvernig þessi samningur lítur núna út sem vonandi, mögulega, kannski, verður samþykktur. Brexit-ævintýrið heldur áfram.