150. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2019.

ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta.

122. mál
[11:25]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar á þskj. 283 með breytingartillögu um frumvarp til laga um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta. Nefndin hefur fjallað um málið á yfirstandandi þingi en eyddi kannski enn þá meiri tíma í málið á síðasta löggjafarþingi, 149. þingi, og tók þá á móti fjölda gesta eins og fram kemur í fylgiskjali. Á yfirstandandi þingi fékk nefndin á fund til sín fulltrúa frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og frá Póst- og fjarskiptastofnun. Nefndinni bárust umsagnir frá Samkeppniseftirlitinu, Byggðastofnun, Gagnaveitu Reykjavíkur, Mílu, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja og Sýn.

Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný lög um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta en með lögunum er tilskipun 2014/61/ESB, um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða rafrænum fjarskiptanetum, innleidd í íslenskan rétt. Eins og áður sagði var frumvarpið áður lagt fram á 149. löggjafarþingi og eina efnislega breytingin sem gerð var fyrir framlagningu þess í ár varðar gildistökuna.

Nefndarálitið er tiltölulega stutt og ég ætla að fara yfir aðalatriðin í því. Þetta er mjög mikilvægt mál, frumvarp í 15 greinum, og verði það að lögum getur það haft mjög jákvæð áhrif á uppbyggingu fjarskiptaneta og samvinnu við uppbyggingu innviða.

Við meðferð málsins lutu athugasemdir umsagnaraðila aðallega að skilgreiningu á hugtakinu efnislegt grunnvirki, þ.e. hvort rétt væri eða unnt að fella svokallaðan svartan ljósleiðara þar undir. Svartur ljósleiðari er ljósleiðari sem er ekki í notkun. Nefndin kallaði eftir frekari gögnum frá ráðuneytinu og óskaði sérstaklega eftir upplýsingum um hvort slík breyting á frumvarpinu rúmaðist innan þess svigrúms sem tilskipunin veitti aðildarríkjum til innleiðingar. Afstaða ráðuneytisins var skýr um að ekki væri rétt eða heimilt að útvíkka orðskýringuna á efnislegu grunnvirki þannig að hún næði yfir svartan ljósleiðara. Ráðuneytið sendi nefndinni ýmis gögn þar að lútandi, minnisblað og fleira þar sem áréttað var að útvíkkun orðskýringarinnar að þessu leyti myndi ganga gegn beinu orðalagi tilskipunarinnar, markmiði hennar og lögum ESB á sviði fjarskipta. Meðal annars er rétt að geta þess að sú leið hefði gengið gegn fjarskiptakóðanum svokallaða, regluverki sem unnið er að innleiðingu á samhliða heildarendurskoðun á öllu regluverki um fjarskipti.

Með hliðsjón af þessari umfjöllun telur nefndin rétt að frumvarpið verði samþykkt óbreytt að þessu leyti, þ.e. að svartur ljósleiðari verði ekki felldur undir orðskýringar. Að því sögðu bendir nefndin á að á fundum nefndarinnar hafi komið fram að það kynni að vera hagkvæmt að opna á frekari heimildir til samnýtingar svarts ljósleiðara en ólík sjónarmið voru uppi um hvort það gæti aukið eða hindrað samkeppni. Þá kom fram að margt benti til þess að nýsköpun í framboði á vörum og þjónustu í fjarskiptum á næstu árum yrði einkum í nýjungum í farnetsþjónustu sem tengd er við ljósleiðara. Nefndin vill í þessu ljósi beina því til ráðuneytisins í þeirri vinnu sem nú fer fram við innleiðingu fjarskiptakóðans og endurskoðun fjarskiptalaga að allt það svigrúm sem þar gefst til samnýtingar og samvinnu af hvaða tagi sem er verði nýtt með hagkvæmni og samkeppnissjónarmið að leiðarljósi, að gættum skilyrðum tilskipunarinnar. Skilyrði eins og eru í tilskipuninni geta hugsanlega heimilað samnýtingu í einhverjum tilfellum en ekki almennt.

Nefndin telur ákvæði frumvarpsins til mikilla bóta en með þeim er stuðlað að frekari samnýtingu fyrirliggjandi innviða og samhæfingu framkvæmda sem ætti að geta leitt til hraðari uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Gerð er grein fyrir þeim í þingskjalinu og ég ætla ekki að fara yfir þær breytingartillögur hér.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum. Undir nefndarálitið skrifa Bergþór Ólason formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Karl Gauti Hjaltason og Kolbeinn Óttarsson Proppé. Nokkrir þingmenn voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis, þeir Ari Trausti Guðmundsson, Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason. Áheyrnarfulltrúi í nefndinni, Björn Leví Gunnarsson, er samþykkur áliti þessu.