150. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[12:33]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. EFTA-ríkin hafa haft rúm þrjú ár til að gera ráðstafanir vegna áhrifa af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og samningarnir eru í það heila mjög góðir. Í þeim er gert ráð fyrir þriggja ára aðlögunartímabili þar sem meginhluti ákvæða EES-samningsins haldi gildi sínu. Íslenskir ríkisborgarar búsettir í Bretlandi njóta ásamt lögaðilum sömu réttinda og áður á tímabilinu og ákvæðið er gagnkvæmt. Það er hins vegar ótrúlegt að á þeim þremur árum sem liðin eru síðan Bretar samþykktu útgönguna hafi Alþingi ekki verið betur upplýst um framgang samningaviðræðna. Viðbætur komu frá dómsmálaráðuneytinu á síðustu stundu.

Ég verð að hrósa Norðmönnum fyrir að leiða þessar samningaviðræður fyrir hönd EFTA-ríkjanna. Þó að það sé erfitt að sjá öll þau tækifæri sem utanríkisráðherra hefur margoft lýst yfir að felist í útgöngu Breta úr Evrópusambandinu er þetta varnarsigur sem tryggir sölu sjávarafurða og réttindi Íslendinga í Bretlandi til þriggja ára.