150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

vegalög.

60. mál
[13:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir alveg framúrskarandi framsöguræðu fyrir þessu þjóðnytjamáli. Yfirferð hans var slík að ekki er mjög miklu við hana að bæta. Hann fjallaði ítarlega um málið. Það hefur áður komið fram en hefur alla verðleika til að fá, eins og hv. 1. flutningsmaður talaði fyrir, ítarlega og málefnalega meðferð og afgreiðslu á Alþingi. Ég er mjög stoltur af því að vera í hópi flutningsmanna þessa máls sem að stofni til er kannski ekki síst hugsað út frá nauðsyn Eyjamanna á því að búa við öruggar og greiðar samgöngur. Frumvarpið hefur hins vegar miklu víðtækari skírskotun eins og hv. 1. flutningsmaður rakti ítarlega í framsögu sinni.

Það er og hefur um langan aldur verið mikið baráttumál og hagsmunamál fyrir Eyjamenn að búa við traustar og öruggar samgöngur á sjó og í lofti. Sú barátta er orðin býsna löng og hefur skilað mjög miklum árangri. Betur má þó ef duga skal og að því markmiði miðar þetta frumvarp. Hér er nýtt hugtak tekið upp, hugtakið þjóðferjuleiðir. Þetta er nýmæli, nýtt innlegg í umræður um samgöngumál, nýtt hugtak og skilgreint svona, með leyfi forseta:

„Þjóðferjuleiðir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni. Til þjóðferjuleiða teljast leiðir þar sem ferja kemur í stað vegasambands um stofnveg og tengir byggðir landsins sem umluktar eru sjó við grunnkerfi samgangna á meginlandinu.“

Þetta frumvarp hefur skírskotun fyrir landið allt. Það er tiltekið í greinargerð að málið snúi ekki bara að samgönguvanda Vestmannaeyja heldur öðrum byggðum eyjum við landið. Þær eru taldar upp í greinargerð. Þær eyjar sem búseta er í árið um kring eru um þessar mundir fjórar talsins, Heimaey í Vestmannaeyjum, Grímsey úti fyrir Eyjafirði, Flatey á Breiðafirði og Hrísey á Eyjafirði.

Í greinargerð segir að Vestmannaeyjar hafi mikla sérstöðu í samgöngulegu tilliti, sem er síst orðum aukið, og sé mat flutningsmanna að það sé hlutverk hins opinbera að tryggja þangað góðar og greiðar samgöngur á sanngjörnu verði með nákvæmlega sama hætti og hið opinbera stendur straum af rekstri sameiginlegs vegakerfis um land allt, hafna og flugvalla.

Í greinargerð er rakið að markmið frumvarpsins sé að ákveðnar ferjuleiðir, sem svo eru nánar tilgreindar, falli undir skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum vegna sérstöðu sinnar. Þar er lagt til að þjóðferjuleiðum, svo maður haldi á lofti þessu nýja hugtaki í samgöngumálum sem verður ekki skilið frá umræðu um samgöngumál eftir að þetta frumvarp hefur litið dagsins ljós, verði bætt við skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum. Undir þessa nýju skilgreiningu falla þá ferjuleiðir sem tengja byggðar eyjar við grunnvegakerfi landsins. 1. flutningsmaður hefur lagt í þetta mál mikla undirbúningsvinnu eins og glögglega mátti heyra af framsöguræðu hans áðan. Málið rataði til nefndar á síðasta þingi og þá komu ágætar umsagnir sem hv. 1. flutningsmaður gerði góða grein fyrir. Það er mikilvægt að þetta mál fái ítarlega umfjöllun.

Íbúar á eyjum við landið eiga sjálfsagða kröfu til þess að öruggar samgöngur til og frá heimili séu tryggðar af ríkisvaldinu með því að ríkið standi að rekstri á ferjum á skilgreindum þjóðferjuleiðum í vegalögum. Tíðni þeirra samgangna og þjónustustig verði skilgreint eins og ríkisvaldið gerir með aðrar samgöngur um vegi í þjóðvegakerfi landsins. Þannig verði lagðar þær skyldur á ríkisvaldið að halda opnum öllum skilgreindum þjóðferjuleiðum í landinu.

Herra forseti. Ég vona að þetta mál fái þá meðferð og þær viðtökur sem það á skilið. Eins og hv. 1. flutningsmaður gat um eru flytjendur þessa máls úr ýmsum stjórnmálaflokkum og jafnt úr röðum stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég ítreka óskir mínar um að þetta mál fái góða og greiða leið í gegnum hið háa Alþingi.