150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

vegalög.

60. mál
[13:19]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka Karli Gauta Hjaltasyni kærlega fyrir hans ítarlegu yfirferð á málinu. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni sem og hv. þm. Ólafi Ísleifssyni sem talaði á undan mér. Eins og komið hefur fram er um að ræða nýtt hugtak, þjóðferjuleiðir, gott hugtak sem ég tel skýra sig sjálft. Við erum að ræða samgöngur út í Vestmannaeyjar, Flatey á Breiðafirði, Hrísey á Eyjafirði og Grímsey úti fyrir Eyjafirði þaðan sem, eins og þingheimi er kunnugt um, nýjustu fréttir bera með sér að nú þarf það samfélag mjög á því að halda að samgöngur þangað séu tryggðar með öllum mögulegum hætti vegna þess að líklega eru bestu tækifærin þar um þessar mundir fólgin í því að bæta við í ferðaþjónustu. Þá þarf að vera tryggð leið á staðinn sem ég held að við köllum hér eftir þjóðferjuleið.

Þetta er í grunninn byggðamál. Það skiptir byggðirnar allt í kringum landið miklu máli að útverðir hverrar byggðar séu varðir því að enginn kjarni getur treyst á að lifa af ef útverðirnir falla. Hér er líka um þverpólitískt mál að ræða ef horft er til meðflutningsmanna frumvarpsins og eins í því ljósi að þetta skiptir íbúana í þessum byggðum svo gríðarlega miklu máli. Þess vegna er brýnt að málið fái jákvæðan og góðan framgang á Alþingi, enda er það vel undirbúið og ekkert í því sem ætti að gera það að verkum að það hikstaði eitthvað á hinni hefðbundnu leið sem mál þurfa að fara á Alþingi.

Ég ítreka það sem kom fram áðan, þetta er byggðamál og við þurfum að verja útverðina ef kjarninn á að halda.