150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja.

30. mál
[13:27]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja. Flutningsmenn tillögunnar eru þingmenn Samfylkingarinnar. Svo vonumst við eftir að þingmenn annarra flokka taki undir þetta mál. Þingsályktunartillagan hljómar svona:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin undirbúi og hrindi í framkvæmd aðgerðum í því skyni að styðja sérstaklega við vöxt og viðgang smærri fyrirtækja og efla nýsköpun og þekkingariðnað í landinu.“

Eitt af forgangsmálum þingflokks Samfylkingarinnar nú við upphaf þingvetrar eru stuðningsaðgerðir við örfyrirtæki, sem hafa tíu starfsmenn og færri, og lítil fyrirtæki með milli 11 og 49 starfsmenn. Þessi fyrirtæki eru hryggjarstykki íslensks samfélags, þ.e. atvinnulífsins. Aðgerðirnar sem við leggjum til, eru sjö talsins. Í fyrsta lagi leggjum við til hraðari lækkun tryggingagjalds til lítilla fyrirtækja og örfyrirtækja og rekstrarlegar ívilnanir fyrir smærri fyrirtæki. Í öðru lagi að þakið á endurgreiðslum til fyrirtækja vegna nýsköpunar og þróunar verði afnumið að fullu. Í þriðja lagi að skattalögum verði breytt til að skapa hvata til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Í fjórða lagi að regluverk verði einfaldað og netvæðing opinberrar þjónustu aukin til að flýta ferlum og minnka kostnað án þess að það komi niður á réttmætum markmiðum löggjafar. Í fimmta lagi að frekari skattahvatar verði kannaðir til að styrkja vaxandi fyrirtæki innan hugverkageirans. Í sjötta lagi að stoðkerfi atvinnulífsins verði endurskipulagt til að efla getu þess og færni til framþróunar og nýsköpunar og í sjöunda og síðasta lagi að áhersla verði á aukna tækni- og iðnmenntun, skapandi menntun og endurmenntun.

Herra forseti. Framlag smærri fyrirtækja til vergrar landsframleiðslu er verulegt. Þessi fyrirtæki veita fjölbreytta þjónustu, skapa atvinnu og eru farvegur frumkvöðlastarfs því að þau hafa sveigjanleika til að laga sig hraðar að breyttum aðstæðum en stærri fyrirtæki hafa gjarnan. Þau styðja vel við stærri fyrirtækjasamstæður í vistkerfi á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins. Auk þess eru þau öflug úti um allt land. Þau eru hlutfallslega mjög mörg á höfuðborgarsvæðinu en þau eru líka sterk á landsbyggðinni og má eiginlega segja að þau séu lífæð fólksins sem þar býr. Hvert einasta litla þorp þarf á sínum smið að halda, sínum bakara, sínum endurskoðanda o.s.frv. Þetta eru nefnilega oft fyrirtæki sem eru og verða alltaf lítil. Þetta eru fyrirtæki sem fólk býr til fyrst og fremst til að veita nærþjónustu og gjarnan til þess að skapa sér og sínu fólki afkomu. En þó að þau ætli sér ekki að stækka eru þau engu að síður burðarás í íslensku samfélagi.

Oft eru ákvarðanir sem teknar eru hérna inni er varða fyrirtæki hugsaðar út frá hagsmunum stærri fyrirtækja, jafnvel þeirra allra stærstu. Hér eru daglega viðfangsefni sem lúta að sértækum verkefnum, sértækum fyrirtækjum, stórum atvinnugreinum. Aftur á móti virðist vera allt of lítið vera hugsað út frá því smáa. Þær aðgerðir sem flutningsmenn leggja áherslu á hér gagnast auðvitað líka meðalstórum og stórum fyrirtækjum en með þessari tilraun er verið að reyna að hugsa út frá þörfum smærri fyrirtækja því þau virðast eiga sér færri málsvara hér inni á þingi. Við eigum að hugsa smátt fyrst. Lítil fyrirtæki eru drifkraftur sköpunar og spretta gjarnan í kringum nýjungar en þau standa hins vegar oft frammi fyrir erfiðleikum sem reynast stærri fyrirtækjum ekki jafn þungbærir. Því hefur verið fleygt að launagjöld á fyrirtæki séu ígildi níunda hvers starfsmanns. Það er eðlilegt að fyrirtæki greiði sinn skerf til ríkissjóðs svo að hægt sé að fjármagna velferðarkerfið og aðra þjónustu en sérstakar stuðningsaðgerðir við lítil og meðalstór fyrirtæki þekkjast mjög víða og eru mjög algengar í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við. Reynslan erlendis hefur reyndar sýnt að slíkar ívilnanir leiða á endanum til meiri skatttekna en ella. Við verðum einfaldlega að skjóta fjölbreyttari stoðum undir atvinnulíf á Íslandi. Við þurfum að horfa til framtíðar og styðja betur við fyrirtæki sem byggja á hugviti en ekki bara frumframleiðslu. Fyrirtæki í hugverkaiðnaði, svo sem fyrirtæki á sviði líftækni, hönnunar, hugbúnaðargerðar, kvikmynda, sjónvarps- og tölvuleikjagerðar, lista og í alþjóðageiranum.

Við leggjum til aðgerðir sem styrkja ekki síst stöðu slíkra fyrirtækja og gera þeim mögulegt að bæta reksturinn og viðhalda og/eða fjölga starfsfólki, vaxa og dafna. Þannig sköpum við vel launuð störf um allt land, störf sem ég er viss um að unga fólkið er ekki síður spennt fyrir heldur en hinum hefðbundnu framleiðslustörfum sem við hingað til höfum kannski byggt of mikið á.

En þá að aðgerðunum sjálfum. Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir almennri lækkun tryggingagjalds um 0,25 prósentustig árið 2020 en við leggjum áherslu á að ganga lengra og lækka gjaldið meira og hraðar hjá örfyrirtækjum og litlum fyrirtækjum. Við leggjum því til að tryggingagjald hjá smærri fyrirtækjunum, þeim sem þingsályktunartillagan tekur til, lækki um 1 prósentustig á árinu 2020. Á Íslandi er umhverfi laga og reglna flókið og lítið um ívilnanir fyrir smærri rekstrareiningar. Regluverk er aftur á móti mjög mikilvægt, enda er því ætlað að auka velferð samfélagsins, efnahagslega og félagslega. Til að lög og reglur skili tilætluðum árangri þarf að gæta að því að þau séu skýr og einföld. Of flóknar, íþyngjandi eða kostnaðarsamar reglur geta verið hamlandi og jafnvel leitt til óheilbrigðs viðskiptalífs. Margt bendir til þess að regluverk fyrir frumkvöðla sé jafnvel enn flóknara á Íslandi en víða annars staðar. Þeir sem stofna til rekstrar þurfa t.d. gjarnan að sækja um leyfi hjá mörgum aðilum. Einungis í undantekningartilvikum er unnt að sækja um leyfi á einum stað. Ekki er heldur hægt að finna á einum stað upplýsingar um kröfur sem fyrirtækin þurfa að uppfylla til að hefja starfsemi sína. Við leggjum auk þess til að staðið verði við fyrirheit um bætta stafræna þjónustu. Öll þjónusta hvað varðar stofnun og rekstur fyrirtækja sé í boði með stafrænum hætti eftir því sem unnt er.

Það skiptir auk þess miklu máli að bæta og endurskipuleggja stoðkerfi atvinnulífsins. Þar fyrirfinnst mikil reynsla, þekking, þjónusta og jafnvel fjármagn, en kerfið er allt of flókið, sundurslitið jafnvel, og aðgengi að upplýsingum er ekki nægilega gott.

Þá er að nefna tillögu okkar um afnám þaks á endurgreiðslur vegna rannsókna og nýsköpunar sem myndi stuðla að meiri verðmætasköpun í landinu, hjálpa til við uppbyggingu öflugs þekkingariðnaðar og efla alla nýsköpun. Afnám þaksins hefði jákvæð áhrif á vaxandi fyrirtæki af öllum stærðum. Ísland er núna neðst á lista þeirra þjóða innan OECD sem beita endurgreiðsluaðferð til að styðja við rannsóknir og þróunarverkefni og þreföldun hámarksins sem fyrirhuguð er hrekkur einfaldlega skammt til að breyta þeirri mynd.

Þá er lagt til að skattahvatar sem erlend ríki hafa innleitt til að styrkja vaxandi fyrirtæki innan hugverkageirans verði kannaðir. Mörg Evrópuríki hafa tekið upp skattaívilnanir sem sérstaklega eru ætlaðar til að styrkja ákveðnar atvinnugreinar. Á Íslandi eru fordæmi fyrir endurgreiðslu kostnaðar við kvikmyndagerð og framleiðslu tónlistar en fyrirtæki sem hanna tölvuleiki eða sinna annarri liststarfsemi ættu einnig að geta fengið sambærilegar endurgreiðslur vegna þróunarkostnaðar en t.d. tölvuleikjagerð krefst samspils nær allra skapandi greina í einu verkefni.

Eitt af helstu vandamálunum sem lítil nýsköpunarfyrirtæki reka sig á er slæmt aðgengi að fjármunum. Hér þarf að skapa vettvang þar sem frumkvöðlar með góðar hugmyndir hafa aðgang að fjárfestum með gott aðgengi að fjármagni og öfugt. Oftar en ekki þarf aðkomu stjórnvalda til að skapa sérstakan hvata til fjárfestingar í litlum, nýjum fyrirtækjum. Við leggjum því til skattafslátt til sérhæfðra sjóða, fagfjárfesta og/eða einstaklinga sem leggja þeim til hlutafé, draga úr áhættu og stuðla að auknum fjárfestingum. Slíkar ívilnanir voru í gildi í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur en flutningsmenn fela ríkisstjórninni að leita leiða til að koma aftur á slíkum ívilnunum sem standast Evrópureglur og ætlað er að styðja við lítil nýsköpunarfyrirtæki í vexti. Æskilegt væri auðvitað að þessi fyrirtæki byggju við stöðugri gjaldmiðil sem myndi auka rekstraröryggi þeirra umtalsvert en talsverður hluti margra þessara nýsköpunarfyrirtækja sem vilja stækka er yfirleitt í erlendum gjaldmiðlum en laun oftast í íslenskum krónum og reyndar allt of lítið fjallað um þessi óheppilegu tengsl hérna í þingsal. Þau geta oft ráðið úrslitum um hvort fyrirtækin geti hugsað sér að starfa hér til langframa en þetta eru þau fyrirtæki sem við þurfum allra helst á að halda í sókninni til framtíðar.

Ef okkur á að farnast vel og hafa burði til að takast á við framtíðaráskoranir verðum við líka að byggja undir þessi fyrirtæki og boða stórsókn í menntamálum. Þar finnst mér því miður vera pottur brotinn og stórsóknin vera meira í orði en á borði, a.m.k. í fjárlögunum. Til að efla hugvitið og nýta þessa einu auðlind sem er ekki bara óþrjótandi heldur þeirrar gerðar að hún vex eftir því sem gengið er meira á hana þarf miklu fjölbreyttara skólastarf sem mætir nemendum á styrkleikum þeirra en ekki veikleikum. Þá er greiður aðgangur að sérfræðimenntuðu starfsfólki ein af grunnþörfum hugvitsdrifinna fyrirtækja.

Í samhengi nýsköpunar er jafnan litið til hlutfalls einstaklinga sem hafa menntað sig á sviði raunvísinda eða tækni sem einnig hefur verið nefnt STEM, með leyfi forseta, Science, Technology, Engineering and Mathematics. Í samanburði við önnur Evrópuríki situr Ísland aftarlega á merinni en aðeins 16% háskólamenntaðra hérlendis hafa STEM-gráðu. Nýlega hefur einnig verið talað um svokallaðar STEAM-gráður, en þær hefur einnig fólk með menntun í hinum skapandi greinum. Það er ábyggilega eitthvað sem við ættum að leggja áherslu á. Hvort sem fólk ákveður að vinna við þær greinar sem það leggur stund í listum felst a.m.k. töluverður ávinningur í því að efla sköpunarkraftinn. Því segi ég að þó að flutningsmenn fagni áherslu mennta- og menningarmálaráðherra á iðn- og tækninám, þá er hægt að gera miklu betur. Inn í aðgerðir ráðherrans vantar t.d. algjörlega þessa þriðju stoð sem ég var að tala um áðan, þ.e. skapandi greinar. Það er alveg ljóst núna þegar við erum í miðri fjórðu iðnbyltingu að eftirsóknarverðasti eiginleiki hvers einstaklings og hvers samfélags verður sköpunargáfan. Ólíkt því sem fólk freistast til að halda er sköpunargáfa ekki eiginleiki sem nýtist bara í ákveðnum greinum, oftast tengdum listum. Sköpunargáfa er í rauninni forsenda fyrir nálgun í öllum fögum, hvort sem maður er endurskoðandi, skáld, verkfræðingur eða annað. Þess vegna verðum við að fara að leggja meiri áherslu á hana.

Herra forseti. Ég vona að lokum að þingheimur taki vel í þessa tillögu. Það hljóta allir að geta tekið undir að þetta eru nauðsynlegar aðgerðir. Veltið því bara fyrir ykkur hvað þessi litlu tveggja, þriggja, fjögurra, fimm manna fyrirtæki um allt land gera fyrir landið okkar og fyrir búsetu í þessu risastóra, fámenna landi. Það væri nánast óhugsandi að búa á Þórshöfn, Raufarhöfn, Bolungarvík, Hellu eða öðrum stöðum ef það væru ekki til hörkuduglegir einstaklingar sem veita í raun nærþjónustu og gera fæstir nokkuð meiri kröfur en bara að geta brauðfætt sig og fjölskyldu sína.