150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja.

30. mál
[13:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða þingsályktunartillögu um aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja og að mörgu leyti er ég ofboðslega sammála þessu. Þarna er kannski aðallega verið að tala um hugbúnaðarfyrirtæki og slík. Mitt síðasta starf áður en ég kom inn á þing var í smáfyrirtæki á Laugaveginum. Þar horfði ég á það, síðasta árið sem ég var þar í vinnu, hvernig þrengt var að smáfyrirtækjunum og þau hreinlega hrakin í burtu eða að þau bara gáfust upp og hættu. Þar er um undarlegt fyrirbrigði að ræða. Ég gerði mér ferð sérstaklega á Laugaveginn um daginn til þess að fá að keyra upp Laugaveginn. Það segir okkur alla söguna vegna þess að ég man að alla tíð hefur maður keyrt niður Laugaveginn en þetta var í fyrsta skipti sem ég náði að keyra upp hann. Svona hringlandaháttur eins og hefur verið þarna er ekki góður fyrir smáfyrirtæki. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um að málin eru ekki alveg í lagi þegar við erum með þannig reglur og lög að við hrekjum góð fyrirtæki sem hafa starfað upp undir 90 eða 100 ár í burtu vegna þess að við gerum þeim ókleift að starfa. Það liggur við að hvorki sé hægt að koma vörum né annarri þjónustu að þeim. Þurfum við ekki að huga svolítið vel að því og passa upp á að aðstaða þessara fyrirtækja sé ekki skert á einn eða neinn hátt? Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að þetta sé vandamál sem við verðum að leysa úr?