150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja.

30. mál
[13:44]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég legg þessa þingsályktunartillögu fram er einmitt sú að ég vil að þessum fyrirtækjum sé boðið upp á betri rekstrarskilyrði. Ég veit ekki alveg hvert hv. þingmaður var að fara með Laugaveginn. Nú er það auðvitað ekki á verksviði okkar að hafa skoðun á því eða a.m.k. ekki að taka fram fyrir hendurnar á skipulagsyfirvöldum í hverju og einu sveitarfélagi ef það er það sem hann á við. Það sem við erum kannski fyrst og fremst að fjalla um hérna eru t.d. álögur á þessi fyrirtæki. Ég hef talað við fjölda fólks við undirbúning tillögunnar, bæði í vaxandi nýsköpunarfyrirtækjum en einnig hárgreiðslufólk, smiði, pípulagningamenn, bakara, fólk sem rekur þvottahús og alls konar fyrirtæki. Það sem einkennir svona fyrirtæki og gjarnan líka þau sem eru drifin áfram af hugviti er að þetta er nánast bara launakostnaðar og húsnæði. Tryggingagjaldið leggst sérstaklega þungt á slík fyrirtæki, þar sem launakostnaður er 80% af heildarumsvifum, á meðan kannski stór sjávarútvegsfyrirtæki eru með launakostnað um 30–35% af sinni starfsemi. Tryggingagjaldið leggst sérstaklega þungt á smærri fyrirtæki. Ég hef einbeitt mér að aðgerðum sem löggjafinn hefur á sínu færi að laga og þær lúta að sköttum, að hvötum og brjálæðislega flóknu regluverki.