150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja.

30. mál
[13:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir svarið. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að við höfum ekki vald yfir framkvæmdum bæjarfélaga En eins og ég segi hugsar maður oft: Ef við sem löggjafinn erum að aðstoða fyrirtæki til að starfa á ákveðnum stað á ákveðnum grunni er ofboðslega erfitt þegar aðrir leggja stein í götu viðkomandi fyrirtækja. Það ætti að vera eitthvert samráð og samflot. Ákveðin fyrirtæki blómstra á ákveðnum stöðum og það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef viðkomandi getur ekki verið þar. Við vitum hvað voru gífurlega mörg smáfyrirtæki á þessu litla svæði hérna í miðbænum en flestöll eru þau farin. Núna eru eiginlega bara eftir veitingastaðir, krár og lundabúðir. Við þurfum einhvern veginn að tryggja það með samráði við sveitarfélögin að þau séu ekki að leggja stein í götu þessara fyrirtækja. Ég er algjörlega sammála um að við þurfum að gera eitthvað og við þurfum að bæta umhverfið og passa okkur á því að vera ekki að skattpína þessi fyrirtæki. En við þurfum líka að tryggja að þau geti verið á sínum stað.