150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja.

30. mál
[13:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða þingsályktunartillögu um aðgerðir í þágu smáfyrirtækja, lagða fram af Samfylkingunni. Ég er algjörlega sammála henni en ég vil segja að ég er alveg til í eina götu þar sem maður dettur inn í Dickens. Ég er viss um að það myndi trekkja rosalega mikið að. Þess vegna eigum við að hafa fjölbreytni.

Það sem ég vil helst ræða er hugbúnaðarfyrirtæki og fyrirtæki með kvikmyndir, sjónvarp, hönnun og annað í því samhengi að við höfum lagt fram frumvarp um að leyfa öryrkjum að vinna, skapa sér vinnu, fara út og vinna og vera ekkert að skerða þá á meðan. Gefa þeim kannski tvö ár tækifæri til að byggja sig upp. Ég veit að það eru margir skapandi meðal öryrkja og þeir geta gert hluti ef þeir fá að gera þá á sínum forsendum. Við höfum séð þetta bæði í hugbúnaðarsmíði, gerð kvikmynda og alls konar. Þeir geta gert hlutina. En það er alltaf verið að setja þeim stólinn fyrir dyrnar.

Ég er líka sammála um tryggingagjaldið, það á að gera umhverfið þannig að það sé á allan hátt gott fyrir alla viðkomandi. En svo þurfum við líka í sambandi við hugbúnaðargerð, kvikmyndagerð og annað, að huga að skólakerfi okkar sem byggist þannig upp að ef maður er snillingur á einu sviði — snillingur í að gera kvikmynd, snillingur á tölvu — má maður samt ekki læra eingöngu það þegar maður er kominn á ákveðinn aldur. Stefni maður á framhaldsnám verður að fara út úr skólakerfinu til að geta farið í einkageirann til að læra eingöngu viðkomandi fag, kvikmyndagerð, hugbúnaðargerð. Ég þekki þetta af eigin reynslu, ég fór bæði í að læra kvikmyndagerð og líka að læra á tölvu og það var á sitt hvorum staðnum. Þetta kostar stóran pening. Það sem ég myndi vilja er að við byggjum til skólakerfi þannig að ungir drengir og stúlkur sem vilja eingöngu læra eitthvað ákveðið þegar komið er áleiðis geti farið beinustu leið í framhaldsnám í viðkomandi fagi, þurfi ekkert að fara í landafræði eða læra dönsku heldur eingöngu læra á sínum forsendum. Viðkomandi segir: Ég vil bara fara í tölvunám eða enskunám og fær það bara. Það verði byggt undir þann áhuga og reynt að finna út hjá þessum ungu krökkum nákvæmlega hvar áhuginn liggur. Síðan kemur svona tillaga sem byggir á því að grundvöllurinn verði til staðar fyrir þessa einstaklinga þegar þeir koma út með skapandi hugmyndir og ákveðnir í því að láta til sín taka — þá geta þeir stofnað fyrirtæki og byrjað að vinna.